Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 30. júní 2022 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
West Ham gengur illa að semja við Danjuma
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

West Ham United er búið að komast að samkomulagi við Villarreal um kaupverð á kantmanninum öfluga Arnaut Danjuma.


Hamrarnir eru tilbúnir til að borga rúmlega 40 milljónir evra fyrir Danjuma sem átti frábært tímabil og skoraði 16 mörk í 34 leikjum.

Vandamálið liggur í samningsviðræðunum við leikmanninn þar sem launakröfur hans eru alltof háar fyrir Hamrana.

Umboðsteymi Danjuma er ekki stressað yfir viðræðunum þar sem leikmaðurinn er sáttur með lífið á Spáni og ekki sérstaklega að leitast eftir félagaskiptum nema fyrir rétt laun.

Danjuma gekk í raðir Villarreal fyrir ári síðan. Hann kom frá Bournemouth fyrir 25 milljónir evra og á fjögur ár eftir af samningnum sínum.

Danjuma er ekki eini leikmaðurinn sem David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, hefur augastað á. Hann er gríðarlega hrifinn af Armando Broja, leikmanni Chelsea sem var á láni hjá Southampton á síðustu leiktíð, og Jesse Lingard, sem er falur á frjálsri sölu.

West Ham er þegar búið að festa kaup á markverðinum Alphonse Areola og miðverðinum Nayef Aguerd í sumar. Félagið borgaði tæpar 10 milljónir punda fyrir Areola og tæpar 30 milljónir fyrir Aguerd.


Athugasemdir
banner