Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
banner
   lau 30. september 2023 21:04
Brynjar Ingi Erluson
Van Dijk um VAR: Mér finnst þetta allt skrítið
Virgil van Dijk var niðurlútur eftir tapið
Virgil van Dijk var niðurlútur eftir tapið
Mynd: Getty Images
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, var hissa á dómgæslunni í leik liðsins við Tottenham Hotspur í dag, en hann skilur ekki ákvörðun VAR í markinu sem var dæmt af Luis Díaz.

Liverpool var manni færri þegar Luis Díaz skoraði mark, sem var löglegt, en samt dæmt af.

Heung-Min Son skoraði fyrir Tottenham stuttu síðar áður en Cody Gakpo jafnaði undir lok hálfleiksins.

Liverpool spilaði tveimur mönnum færri frá 69. mínútu og kom sigurmark Tottenham þegar lítið var eftir þegar Joel Matip sparkaði fyrirgjöf Pedro Porro í eigið net.

„Það er erfitt að tapa, hvernig sem á það er litið. Það var gott að sjá baráttuna, varnarleikinn og samheldnina sem við sýndum. Stjórinn sagði það sama við okkur í klefanum og fyrir mig sem fyrirliða var það gott að sjá alla leggja svona hart að sér og berjast fyrir hvor annan, en að fá á sig sjálfsmark á síðustu tveimur mínútum leiksins er grimmt.“

„Ég veit hversu erfitt þetta er sem miðvörður. Það er alltaf erfitt að hreinsa fyrirgjöf þegar boltinn kemur á ljótu skoppi. Boltinn fór inn og því miður getur svona lagað gerst. Þetta er góður vinur minn og ég veit að hann verður í lagi.“


Er Van Dijk búinn að missa trúna á VAR?

„Það er erfitt að segja hvort ég sé að missa trúna. VAR á að vera skýrt og augljóst með allt sem þeir ákveða. Ég hef séð myndina af þessu aftur, en línurnar voru ekki sýndar í beinni útsendingu. Það er allt skrítið við það.“

„Ég veit ekki hver var að taka þessa ákvörðun í VAR-herberginu, en þetta er ekki gott og lítur ekki vel út. Það er eins og það er, við töpuðum.“
sagði Van Dijk enn fremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner