Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 30. nóvember 2022 17:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvar spila þeir áströlsku? - „Ekki einn kæmist í byrjunarlið Dana"
Mitchell Duke er ein af hetjum Ástralíu á þessu móti.
Mitchell Duke er ein af hetjum Ástralíu á þessu móti.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Harry Souttar.
Varnarmaðurinn Harry Souttar.
Mynd: Getty Images
Ástralía mun taka þátt í 16-liða úrslitunum á HM í annað sinn í sögu þjóðarinnar. Liðið komst upp úr ótrúlega erfiðum riðli sem innihélt Danmörku, Frakkland og Túnis.

Ástralir fögnuðu vel og innilega eftir geggjaðan sigur á Danmörku núna áðan, sigur sem fleytir þeim í 16-liða úrslitin.

Í grein BT í Danmörku eftir þennan leik er Kasper Hjulmand, þjálfari Danmerkur, harðlega gagnrýndur eftir að hafa tapað taktískum bardaga gegn bæði Túnis og Ástralíu á þessu móti. „Þessi lið eru ekki með einn leikmann sem kæmist í byrjunarlið Danmerkur," segir í grein BT.

Til að setja þetta í samhengi þá má sjá hér að neðan þetta byrjunarliðið hjá Ástralíu í dag og hvar leikmenn þeirra spila í félagsliði:

Mat Ryan - FC Kaupmannahöfn í Danmörku
Miloš Degenek - Columbus Crew í Bandaríkjunum
Harry Souttar - Stoke City á Englandi
Kye Rowles - Hearts í Skotlandi
Aziz Behich - Dundee United í Skotlandi
Mathew Leckie - Melbourne City í Ástralíu
Aaron Mooy - Celtic í Skotlandi
Jackson Irvine - St. Pauli í Þýskalandi
Craig Goodwin - Adelaide United í Ástralíu
Riley McGree - Middlesbrough á Englandi
Mitchell Duke - Fagiano Okayama í Japan

Sá síðastnefndi, sóknarmaðurinn Mitchell Duke, leikur ekki í efstu deild í Japan, heldur í B-deildinni. Þar hefur hann skorað átta mörk í 37 leikjum á þessu ári.

Í liði Danmerkur voru stærri nöfn, leikmenn sem spila til dæmis með Barcelona og Manchester United, en það gerði ekki gæfumuninn í þessum leik. Þó leikmennirnir séu kannski ekki betri sem einstaklingar, þá var liðsheildin bara mun betri hjá Ástralíu. Við Íslendingar vitum hversu miklu máli það skiptir, að vera með góða liðsheild.

Sjá einnig:
Skoski kletturinn í vörn Ástralíu - Skartar nýjum húðflúrum í Katar
Athugasemdir
banner
banner
banner