þri 31. maí 2022 13:58
Brynjar Ingi Erluson
Eiður Smári og Hörður Björgvin til AEK?
Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gríski miðillinn Gazzetta greinir frá því í dag að Eiður Smári Guðjohnsen sé í viðræðum við AEK um að taka við sem yfirmaður íþróttamála. Þá vill félagið fá Hörð Björgvin Magnússon á frjálsri sölu frá CSKA Moskvu.

Eiður Smári hætti sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins undir lok síðasta ár en hann hefur einnig starfað í kringum enska boltann á Símanum undanfarið ár. Þar áður var hann í þjálfarateymi FH og U21 árs landsliðsins.

Gazzetta greinir frá því að Eiður gæti nú verið á leið til Grikklands til að taka við sem yfirmaður íþróttamála hjá AEK en Eiður þekkir vel til þar enda spilaði hann með liðinu frá 2011 til 2012.

Mikil endurbygging á sér stað innan hjá AEK og á Eiður Smári að leiða það verkefni að koma AEK aftur í röð fremstu liða. Hann er sagður í viðræðum við félagið sem reynir nú að sannfæra hann um að taka við stöðunni.

Fer Hörður Björgvin með honum?

Annar grískur miðill, Sport FM, segir að AEK hafi mikinn áhuga á því að fá Hörð Björgvin Magnússon á frjálsri sölu frá CSKA Moskvu en samningur hans rennur út um mánaðarmótin.

Heimildir Fótbolta.net staðfesta áhuga AEK á Herði en engar viðræður hafa átt sér stað til þessa.

Hörður er í íslenska landsliðshópnum sem spilar fjóra landsleiki í júní en hann kemur til móts við hópinn síðar í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner