„Mér líður bara virkilega vel með sigurinn, við mætum mjög vel gíraðir og það voru allir með kveikt á sér í dag. Mér finnst við bara spila virkilega góðan bolta, fáum fullt af færum, skorum fjögur mörk og siglum þremur stigum heim," sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson, einn af markaskorurum Vals, eftir sigurinn gegn KR í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 0 - 4 Valur
„Völlurinn er orðinn virkielga góður, það má segja að hann sé til fyrirmyndar, auðvitað skoppar boltinn öðruvísi og þetta er aðeins öðruvísi, en það var ekkert vandamál að aðlagast grasinu."
Valur vann 5-0 sigur í fyrri leik liðanna í sumar. Líður Valsmönnum svona vel á móti KR?
„Já, það er mjög auðvelt að mótivera sig á móti KR, vitandi hvað þetta þýðir fyrir Valsara. Við þurfum rosa lítið að segja fyrir þessa leiki, það vita allir að við þurfum að vera með kveikt á okkur í þessum leikjum, sem við erum búnir að vera og skilað tveimur frábærum frammistöðum á móti þeim í sumar."
Fyrir leikinn í kvöld unnu Valsmenn eins marks sigur gegn Fram og þar á undan tapaði liðið gegn Stjörnunni. Vildu menn fara upp á hærra plan?
„Klárlega. Við áttum ekki nógu góða frammistöðu á móti Stjörnunni, eigum góðan fyrri hálfleik á móti Fram en dölum aðeins í seinni. Við ætluðum að skila heilsteyptri frammistöðu í dag, sem mér fannst við gera."
Tryggvi skoraði annað mark Vals í gær og er skráður með stoðsendingu í þriðja markinu hér á Fótbolti.net.
„Ég held ég fái nú ekki þessa stoðsendingu samt. En fínt að skora í dag, reyna að safna stigum fyrir liðið," sagði sóknarmaðurinn. Hann er búinn að skora níu mörk í sautján leikjum í Bestu deildinni í sumar.
Viðtalið við hann er talsvert lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum efst. Hann er þar spurður út í yngri bræður sína sem gengu í raðir Lille í Frakklandi á dögunum og samningsmál sín.
Athugasemdir