
Selfyssingar töpuðu fyrir Keflavík 4-1 í lokaumferð Lengjudeildarinnar í dag. Niðurstaðan sú að Selfoss fellur í 2.deild en Keflavík náði 5.sæti og fara í umspil við Njarðvík.
„Fyrir þessa umferð var fyrirsjáanlegt að þetta yrði mikill darraðardans, hvað leikinn varðar vorum við alveg inn í þessum leik þangað til við þurftum að taka virkilega sénsa."
Selfoss komust yfir í leiknum eftir víti frá Jóni Daða en voru komnir 2-1 undir eftir rúmar tíu mínútur í seinni hálfleik. „Við vorum með bakið upp við vegg og tókum sénsinn í lokinn en því miður tókst það ekki."
Selfoss fékk nokkur dauðafæri í leiknum til að jafna en ekkert varð úr og Keflvíkingar bættu tveimur mörkum við í lokinn.
„Þetta er soldið saga okkar í sumar, þessi dauðafæri enda einhversstaðar allt annarstaðar en í markinu. Það kannski einkennir svona lið sem er að falla."
2.deildin tekur við hjá Selfossi á næsta ári og spurning hvaða leiðir Bjarni Jó og klúbburinn fara eftir þetta tímabil. „Þeir sem stjórna klúbbnum hljóta að setjast niður og fara vel yfir málin."
„Það er bara þessi hefðbundna haustvinna, menn verða nú að fá að anda aðeins eftir svona þungan dag."