Bayern vill 100 milljónir fyrir Olise - Chelsea reynir að fá Guehi og Maignan frítt - Konate ætlar til Real Madrid
banner
   sun 14. september 2025 19:43
Ívan Guðjón Baldursson
Amorim: Allt mörk sem við gátum forðast
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ruben Amorim var vonsvikinn eftir 3-0 tap Manchester United í nágrannaslagnum gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Man City skoraði þrjú auðveld mörk og er Amorim langt frá því að vera sáttur með varnarleik sinna manna.

„Ef þið lítið á þessi þrjú mörk þá eru þetta allt mörk sem við hefðum getað forðast með því að vera aðeins grimmari. Við erum alltof passívir án boltans," sagði Amorim að leikslokum.

„Í svona leikjum gegn toppliðum þá eru það smáatriðin sem gera herslumuninn að lokum. Þannig var það í dag. Við áttum ekki sérlega góða frammistöðu, þeir voru sterkari en við á mikilvægu köflunum.

„Við vorum að mæta þjálfara sem hefur sjö úrvalsdeildartitla á bakinu. Við erum ennþá að byggja okkur upp til að komast á stað þar sem við getum barist gegn bestu liðunum. Niðurstaðan er samt einföld: Við verðum að gera betur. Þetta er ekki nógu gott."


Þrátt fyrir tapið telur Amorim sína leikmenn hafa lagt allt í sölurnar og hafa staðið sig betur heldur en í leikjunum gegn Man City á síðustu leiktíð.

„Á síðustu leiktíð gerðum við jafntefli og unnum gegn City og í dag vorum við örlítið betri, en það voru smáatriðin sem gerðu gæfumuninn í dag. Við vorum ekki nægilega góðir í þeim. Við erum að byggja okkur upp en við þurfum líka að sigra leiki.

„Það er ekki einn leikmaður sem spilaði leikinn fyrir okkur sem lagði ekki allt í sölurnar. Ég get ekki kvartað undan framlagi leikmanna. Stundum líður mér eins og strákarnir hlaupi ekki nógu mikið en í dag var það ekki þannig. Tapið í dag er mér að kenna, ekki leikmönnum.

„Ég veit að þetta er erfitt fyrir stuðningsmenn en við getum bætt okkur. Það er margt við okkar leik sem við þurfum að laga, eitt af því er að við þurfum fleiri leikmenn inni í vítateignum þegar við gefum boltann fyrir. Við erum að verða betri og betri með boltann en við þurfum líka að bæta okkur í að nýta færin þegar þau gefast."


Amorim var að lokum spurður út í Benjamin Sesko sem hefur farið rólega af stað í Manchester.

„Hann finnur það að hann er kominn í bestu deild í heimi. Við getum hjálpað Sesko að nýta styrkleikana sína en það mun taka tíma."
Athugasemdir
banner