
Þór frá Akureyri tryggðu sig upp í Bestu deild karla í dag með sigri á Þrótti eftir hreinan úrslitaleik um sæti í deild þeirra bestu. Þór fór með 1-2 sigur af hólmi og var mikil gleði meðal stuðningsmanna og leikmanna, þegar lokaflautið gall.
„Maður veit ekki hvað maður á að segja. Það er ekki séns að tapa fótboltaleik með þessa stuðningsmenn hérna. Það er bara ekki séns. Þór virkar bara svona, það er stuðningur sama hvað, þannig að þetta er bara veisla," sagði Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórs eftir leik.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 2 Þór
Leikurinn var spennuþrunginn og mætingin frá stuðningmönnum Þórs algerlega til fyrirmyndar. Þórsarar voru hins vegar ekki of stressaðir og fóru sannarlega með rétt hugarfar inn í leikinn.
„Við fórum með það hugarfar inn í leikinn að þetta væri bara eins og hver annar fótboltaleikur. Hvort við höfum veri betri eða ekki veit ég ekki. Við vorum aðeins tensaðir fannst mér en mér fannst þetta ógeðslega gaman. Við viljum spila svona leiki."
Aron Birkir sýndi ekki sínar bestu hliðar á tímabilinu fyrra, ekki frekar en Þórsliðið sem lenti þá í 10. sæti. Hins vegar hefur hann átt frábært tímabil í ár og var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum í dag.
„Ég tók bara þá ákvörðun að ég ætlaði að fara bara 'all in' í allt, þannig að við erum pínu að uppskera út frá því. Ég veit að ég gat ekkert í fyrra sko en búinn að vera skárri í ár, þannig að ég get ekki kvartað persónulega."
Viðtalið má nálgast í heild sinni í spilaranum að ofan.