FH tók á móti Fram í lokaumferð Bestu deildar karla fyrir tvískiptingu. FH lentu undir í fyrri hálfleik eftir frábært mark Israel Garcia en skoruðu svo tvö mörk á þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik. Það var hins vegar Sigurjón Rúnarsson sem gerði mark í lok leiks, til þess að jafna leikinn fyrir Fram. Þrátt fyrir jafntefli eru FH-ingar tryggðir í efri hlutann.
„Nei, það fannst mér ekki. Framarar komu hérna og þeir voru að svæfa leikinn og komust upp með það og tóku tíma í allt. Þeir eru með mjög gott lið og frábæran þjálfara. Þeir skoruðu mark og héldu áfram að reyna að drepa tempóið og Villi (Vilhjálmur Alvar dómari) leyfði þeim það," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, aðspurður hvort að 2-2 hafi verið sanngjörn niðurstaða.
Lestu um leikinn: FH 2 - 2 Fram
Jóhann Ægir Arnarsson, leikmaður FH var búinn að vera inn á í tvær mínútur, þegar hann fékk að líta rauða spjaldið.
„Mér fannst Villi dæma leikinn mjög vel og mér finnst Villi frábær dómari. En ég talaði við hann í hálfleik og okay það er bætt við einni mínútu í fyrri hálfleik, þar sem Framarar voru að tefja innköst og aukaspyrnur og allt það. Svo komum við inn í seinni hálfleik og þeir eru að tefja. Svo skorum við og komumst yfir og við erum ekki eins klókir og þeir að tefja leikinn. Þá hlýtur það að vera þannig að liðið sem er ekki búið að vera tefja, hljóta að hagnast á því."
Með þessu jafntefli eru FH-ingar endanlega gulltryggðir inn í efra hlutann og sitja þannig í fimmta sæti Bestu deildar karla.
„Auðvitað vildum við enda þar og það tókst. En eins og við höfum talað um, þurfum við bara að setjast niður í vikunni og finna ný markmið."
Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum að ofan.