FH tryggði sig í efri hluta Bestu deildar karla í dag með jafntefli gegn Fram á Kaplakrikavelli. FH-ingar lentu undir eftir gott mark Israel Garcia í fyrri hálfleik en eftir skiptingar Heimis Guðjónssonar í seinni hálfleik, skoruðu FH tvö mörk á þremur mínútum en það var Bjarni Guðjón Brynjólfsson sem skoraði og lagði upp mörkin.
„Þetta var svekkjandi en ég er sáttur með að ná að skora og leggja upp en við börðumst vel og leiðinlegt fá svona mark í andlitið í restina," sagði Bjarni Guðjón Brynjólfsson.
Lestu um leikinn: FH 2 - 2 Fram
FH tryggði sig eins og fyrr segir í efri hluta deildarinnar en þetta var lokaumferð deildarinnar fyrir tvískiptingu. FH er þá í fimmta sætinu með 30 stig eftir leikinn í dag.
„Það er smá öryggi að slíta sig frá þessum þétta pakka neðst og sleppa við einhverja fallbaráttu. Nú þurfum við bara að fókusera á næsta leik og reyna að komast eins ofarlega og við getum í töflunni."
Bjarni Guðjón er uppalinn Þórsari en þeir tryggðu sæti sitt í Bestu deild karla í gær en þeir hafa ekki verið þar síðan árið 2014. Auk þess er endanlega ljóst að KA mun leika í neðri hlutanum í Bestu deild karla. Bjarni Guðjón glotti er hann heyrði af því.
„Það er geggjuð tilfinning. Þórsarar komnir upp í Bestu deildina, þannig að það er gaman að vera Þórsari í dag. Ég fór á leikinn í gær og söng með Mjölnismönnum og það var gleðitilfinning að sjá Þór komast aftur á sinn stað í efstu deild."
Viðtalið má finna í heild sinni að spilaranum að ofan.