Fram heimsótti FH á Kaplakrikavöll í dag en liðin skildu jöfn 2-2. Framarar komust yfir í fyrri hálfleik en lentu undir eftir þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik frá varamönnum FH. Þeim tókst þó að klóra í bakkann og kom jöfnunarmarkið undir lok leiks.
„Mér fannst við vera með ágætis tök, þangað til Heimir gerir þrefalda skiptingu og hleypir nýju blóði í leikinn þeirra. Við náðum ekki að bregðast almennilega við þeim breytingum en svo verðum við einum fleiri og það í rauninni breytir þessu fyrir okkur. Það hefði verið erfitt að sækja mark og eitt stig, ef þeir hefðu verið ellefu inn á. En við náðum að troða inn einu marki í restina og sendum Sigurjón fram í senterinn og vorum búnir að plana það í vikunni. Við hefðum hæglega geta stolið þessu, þegar Róbert skallar framhjá."
Lestu um leikinn: FH 2 - 2 Fram
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði í viðtali eftir leik að Framarar hefðu reynt að svæfa og tefja leikinn mikið og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.
„Ég ætla ekki að segja að við höfum verið að svæfa. Við erum yfir 1-0, staðan er fín og þá þurfa menn ekkert að flýta sér að taka innköst og svona. Þú vilt samt róa leikinn, ég meina við þurftum sigur og eðlilegt að við reynum bara að halda tempóinu niðri. Við erum að spila á grasvelli sem við erum óvanir og Fred var búinn að biðja um skiptingu eftir 65 mínútur. Ég leyfði Fred ekkert að fara útaf og sérstaklega þegar þú lendir undir, þá tekurðu ekki besta manninn í liðinu útaf."
Fram eru sem stendur í síðasta sæti efri hlutans en þeir þurfa að treysta á að Breiðablik vinni eða geri jafntefli við ÍBV í Vestmannaeyjum á morgun, svo að þeir haldi sæti sínu þar.
„Ég ætla ekkert að treysta á eitt né neitt. Örlögin eru ekki í okkar höndum og við þurfum að vona það besta. Eyjamenn hafa verið gríðarlega sterkir í sumar og komið mörgum liðum á óvart. Þannig að við verðum að vona það besta."