Pep Guardiola var kátur eftir 3-0 sigur í nágrannaslagnum gegn Manchester United í dag.
Man City er þá komið með 6 stig eftir fjórar fyrstu umferðirnar á nýju úrvalsdeildartímabili.
„Við breyttum hópnum mikið í sumar, það komu níu leikmenn inn og margir þeirra eru strax orðnir partur af kjarna liðsins. Mér finnst magnað hvað þeir hafa verið fljótir í aðlögunarferlinu. Þeir voru frábærir í dag, þeir sýndu magnaðan baráttuanda. Það er unun að sjá öll þessi brosmildu andlit hérna á vellinum í dag, það eru forréttindi að fá að gleðja fólk með sigri í þessum mikilvæga slag," sagði Guardiola eftir lokaflautið.
„Þetta er bara einn leikur en hann skiptir miklu máli. Strákarnir voru mjög aggressívir og sinntu sínum hlutverkum fullkomlega. Þeir voru eins og vélar. Við eigum leik við Napoli á fimmtudaginn og við verðum að bregðast rétt við og mæta í hann með réttu hugarfari. Við höfum ekki verið nægilega góðir á þessari og síðustu leiktíð en andrúmsloftið er samt gott."
Erling Haaland skoraði tvennu í sigrinum og er þar með búinn að gera 5 mörk í 4 úrvalsdeildarleikjum á nýju tímabili. Phil Foden skoraði fyrsta mark leiksins.
„Erling hefur verið ótrúlegur frá því að hann kom til félagsins en hann hefur aldrei verið jafn góður og hann er núna. Ég myndi segja að hann sé betri heldur en hann var árið sem við unnum þrennuna. Hann er kraftmikill og duglegur að skora.
„Við höfum saknað Phil mjög mikið. Hann var besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á þarsíðustu leiktíð og við þurfum á honum að halda. Phil er hjartað í þessu félagi, hann kemur úr akademíunni og elskar félagið. Það eru frábærar fréttir að fá hann aftur."
Foden kom að 9 mörkum í 28 úrvalsdeildarleikjum á síðustu leiktíð eftir að hafa verið valinn sem besti leikmaður tímabilsins 2023-24. Þar tókst honum að koma að 27 mörkum í 35 leikjum í deild þeirra bestu.
„Við þurftum að vera upp á okkar besta til að vinna í dag og það varð raunin. Fólk segir að ég sé góður þjálfari en það er bara útaf því að ég er með frábæra leikmenn sem eru að gera sitt besta."
Gianluigi Donnarumma spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið í dag.
„Auðvitað á hann ótrúlega markvörslu strax í fyrsta leik. Við erum mjög ánægðir með hans frammistöðu í dag."
Athugasemdir