Ruben Amorim segist vera tilbúinn til að samþykkja hvaða ákvörðun sem stjórnendur Manchester United kunna að taka eftir 3-0 tap gegn Manchester City í dag.
Eins og staðan er í dag er Amorim tölfræðilega meðal allra verstu þjálfara sögunnar hjá Rauðu djöflunum. Undir hans stjórn er liðið með versta sigurhlutfall sem það hefur verið með í ensku deildinni síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk fyrir 80 árum.
Síðan Amorim tók við síðasta nóvember hefur Man Utd fengið 1 stig að meðaltali á leik í ensku úrvalsdeildinni og er með -13 í markatölu.
„Ég get séð úrslitin, við höfum ekki verið nægilega góðir það er staðreynd. Ég skil pirringinn og ég get skilið hvaða ákvörðun sem verður tekin. Ég get tekið við gagnrýni," sagði Amorim meðal annars eftir tapið í dag. En hver eru skilaboðin til reiðra stuðningsmanna félagsins?
„Ég er að gera allt í mínu valdi til að bæta þetta félag. Meðan ég verð við stjórnvölinn, þá mun ég gera mitt besta. Allt annað er ekki mín ákvörðun. Ég get lofað ykkur því að ég er að þjást meira heldur en stuðningsmennirnir."
Stór hluti gagnrýninnar snýr að 3-4-2-1 leikkerfi Amorim sem hann virðist staðráðinn í að spila áfram.
„Þegar ég vil breyta leikstílnum mínum þá geri ég það. Það er rangt að tala um leikstílinn í hvert skipti sem við töpum. Ég skil að slæm úrslit skapa spurningar og ég veit að það er erfitt fyrir fólk að heyra þetta. Ég veit að stuðningsmenn vilja ekki heyra þetta, en ég ætla ekki að ljúga að ykkur eða sjálfum mér. Ég mun ekki breyta um leikstíl. Ef félagið vill breyta um leikstíl þá verður það að breyta um þjálfara.
„Ég veit að gengið hefur ekki verið nægilega gott og ég samþykki hvaða ákvörðun sem verður tekin."
14.09.2025 19:43
Amorim: Allt mörk sem við gátum forðast
Athugasemdir