Everton vill fá Grealish á lægra verði - Man Utd á eftir Wharton - West Ham hafnaði tilboði Chelsea
   lau 13. september 2025 16:24
Brynjar Ingi Erluson
England: Woltemade hetja Newcastle - Sjálfsmark réði úrslitum á Craven Cottage
Nick Woltemade skoraði sigurmark Newcastle
Nick Woltemade skoraði sigurmark Newcastle
Mynd: Newcastle
Gabriel Gudmunds skoraði sjálfsmark í lokin
Gabriel Gudmunds skoraði sjálfsmark í lokin
Mynd: Leeds
Þýski sóknarmaðurinn Nick Woltemade er mættur til Newcastle og kynnti hann sig til leiks með því að gera sigurmarkið í 1-0 sigri á Wolves í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Woltemade var keyptur í stað Alexander Isak sem var seldur til Liverpool og sakna stuðningsmenn þeirra svörthvítu ekki Isak því ný stjarna er fædd á St. James' Park.

Þjóðverjinn skoraði sigurmarkið á 29. mínútu með skalla á fjær eftir fyrirgjöf Jacob Murphy.

Newcastle leit vel út í fyrri hálfleiknum en náði ekki alveg að fylgja því á eftir í þeim síðari.

Wolves-liðið var ryðgað fram á við sem var kannski skiljanlegt í fjarveru Jörgen Strand Larsen. Newcastle hafði öflugan 1-0 sigur og fer því upp í 9. sæti með 5 stig en Wolves án stiga á botninum.

Antoine Semenyo hélt áfram að skína á tímabilinu er hann skoraði sigurmark Bournemouth sem vann Brighton, 2-1.

Alex Scott kom heimamönnum í Bournemouth yfir á 18. mínútu, en japanski landsliðsmaðurinn Kaoru Mitoma svaraði snemma í þeim síðari með skalla.

Evanilson fiskaði vítaspyrnu hálftíma fyrir leikslok og var það Semenyo sem fór á punktinn og skoraði þriðja mark sitt á tímabilinu. Þetta reyndist sigurmark leiksins og Bournemouth í geggjuðum málum snemma tímabils.

Bournemouth er í 3. sæti með 9 stig á meðan Brighton er í 12. sæti með 4 stig.

Everton og Aston Villa gerðu markalaust jafntefli á Hill Dickinson-leikvanginum í Liverpool-borg.

Emi Martínez snéri aftur í markið hjá Villa og þurfti nokkrum sinnum að taka á stóra sínum. Jack Grealish var öflugur hjá Everton-mönnum sem gátu ekki tengt saman heimasigra í dag.

Everton er í 5. sæti með 7 stig en Villa, áfram án sigurs, í næst neðsta sæti deildarinnar.

Fulham vann Leeds, 1-0, á Craven Cottage með dramatísku sigurmarki undir lokin.

Allt stefndi í markalaust jafntefli en á lokamínútunum fengu Fulham-menn hornspyrnu sem Gabriel Gudmundsson stangaði í eigið net. Óheppilegt svo ekki sé meira sagt og Fulham nú með 5 stig í 10. sæti á meðan Leeds er með 4 stig í 14. sæti.

Crystal Palace og Sunderland gerðu markalaust jafntefli á Selhurst Park.

Fyrsta alvöru færi leiksins kom ekki fyrr en á 36. mínútu, en Yeremy Pino náði ekki að koma boltanum á markið. Jean-Philippe Mateta átti annað færi í seinni hálfleiknum sem Robin Roefs varði með tánni.

Á lokamínútunum reyndu Palace menn að finna sigurmarkið en Roefs var með allt í teskeið í markinu og sótti þetta stig fyrir nýliða Sunderland.

Frábær byrjun Sunderland á tímabilinu sem er með 7 stig úr fjórum leikjum en Palace með 6 stig eftir fjóra leiki.

Bournemouth 2 - 1 Brighton
1-0 Alex Scott ('18 )
1-1 Kaoru Mitoma ('48 )
2-1 Antoine Semenyo ('61 , víti)

Newcastle 1 - 0 Wolves
1-0 Nick Woltemade ('29 )

Fulham 1 - 0 Leeds
1-0 Gabriel Gudmundsson ('90 , sjálfsmark)

Everton 0 - 0 Aston Villa

Crystal Palace 0 - 0 Sunderland
Athugasemdir
banner