fös 06. maí 2011 14:00
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Viðburðarík byrjun eftir langa bið
Sam Tillen
Sam Tillen
Framarar fengu far með Þorvaldi.
Framarar fengu far með Þorvaldi.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Guðmundur Magnússon náði í 100 stig í ratleik Fram með því að fá sér tattú.
Guðmundur Magnússon náði í 100 stig í ratleik Fram með því að fá sér tattú.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Jæja, tímabilið er byrjað. Þetta hefur verið löng bið síðan í september á síðasta ári. Því miður náðum við ekki þeirri byrjun sem við vildum. Mér fannst við verðskulda jafntefli gegn ÍBV í leik sem var spilaður í mjög erfiðum aðstæðum. Vindurinn var mikill og völllurinn var slakur en við virtumst vera að ná í mjög gott stig þar til Tryggvi Guðmundsson tók það af okkur. Markið hans sýndi af hverju hann hefur verið svona öflugur markaskorari allan sinn feril. Við unnum ÍBV á fyrsta degi mótsins í fyrra og þeir unnu næstum deildina svo auðvitað er þetta alls ekki búið og við horfum á næsta leik gegn Þór.

Dagurinn endaði á að verða verri fyrir mig og tvo aðra því við lentum í vandræðum á leiðinni til baka. Flugvél Ernis til Reykjavíkur gat einungis tekið 19 menn og vélin sem átti að taka aukamennina þrjá var með ‘vélarbilun’. Svo við vorum beðnir um að verða eftir. Sem betur fer þurftum við ekki að verða eftir í Vestmannaeyjum eins og við óttuðumst fyrst. Flugstjóri frá Eyjum tók sem betur fer aukaferð á Bakka þar sem við biðum á lokuðum flugvellinum eftir mömmu Ögmundar Kristinssonar, hetjunni okkar, sem kom og sótti okkur. Þorvaldur, dómari í leiknum og aðstoðarmenn hans lentu 30 mínútum á eftir okkur og keyrðu okkur hluta af leiðinni sem var mjög vingjarnlega gert. Ég er mjög þakklátur fyrir örlæti þeirra, sérstaklega þar sem ég er stundum (og það réttilega) ekki uppáhald dómaranna! Svo takk aftur fyrir það.

Okkur er spáð sjötta sæti í flestum spam fyrir tímabilið sem virðist raunhæft en það gefur okkur augljóslega tækifæri á að koma á óvart. Ég held að þetta ár verði sérstaklega skemmtilegt og mikið mun velta á því hvernig liðunum gengur að eiga við erfiða dagskrá fyrstu 5 vikurnar á tímabilinu. Við þurfum að koma til baka eftir tapið á mánudag og taka einn leik fyrir í einu. Það er góður andi í hópnum og flestir okkar hafa verið lengi saman núna. Við höfum bætt við reynslu og gæðum með því að fá Arnar Gunnlaugsson, eitthvað sem við höfðum ekki á síðasta ári. Við höfum að mínu hógværa mati besta miðvörðinn í deildinni í Jóni Guðna Fjólusyni. Auðvitað myndi ég vilja sjá hann fara út og gera stærri hluti og á einhverju tímapunkti mun það gerast. Sem leikmaður Fram er ég hins vegar ánægður að hann er ennþá með okkur. Samvinna hans og Kristjáns Haukssonar verður mikilvæg fyrir okkur. Ég tel líka að við höfum besta markvörðinn. Ef Ögmundur Kristinsson sýnir hæfileikana sem hann hefur og spilar jafnvel og hann gerði í Vestmannaeyjum þá vona ég að hann geti komist inn í U21 árs hópinn fyrir mótið í Danmörku í júní. Hannes hefur verið með markvarðarstöðuna undanfarin ár en hugarfar og trú Ögmundar á eigin getu hefur verið stórkostleg og það eitt og sér verðskuldar velgengni.

Við höfum fengið tvo leikmenn, Allan og Mark, frá Bretlandi. Ég vona að þetta muni hjálpa okkur mikið. Síðan þeir komu fyrir tveimur vikum hefur sterkur hreimur þeirra verið að rugla liðsfélaga mína. Veðrið hefur heldur ekki verið mjög gott. Ég sagði þeim að sumarið myndi byrja á sumardaginn fyrsta og þeir horfðu á mig eins og ég væri brjálaður.

Þeir tóku líka þátt í ratleik. Fyrir ykkur Íslendinga er þetta eðlilegt en ekkert líkt þessu gerist í Bretlandi. Mark, frá Manhester var í mínu liði. Hann var steinhissa þegar hann horfði á liðsfélaga sína pissa næstum í sig af hlátri (ekki ég) þegar þeir trufluðu tíma í World Class, sungu fyrir fólk sem var að borða á Stjörnutorgi, fóru á lögreglustöðuna og fengu myndir af sér þegar verið var að handtaka þá, stálu fánum, löbbuðu berir að ofan niður Bankastræti í 2 stiga frosti, öskruðu ókvæðisorð í Háskólanum í Reykjavík og ‘notuðu klósettið’ á heimili annara leikmanna. Hann sagði meira segja ‘hvað er ég búinn að koma sjálfum mér út í hérna?’ Þessi náungi hefur spilað í sex löndum, verið sagt að tapa leik af þjálfara sínum í Grikklandi og forsetinn hjá síðasta félagi í Rússlandi hótaði að brjóta á honum lappirnar!

Guðmundur Magnússon á skilið mikið hrós fyrir að ná í 100 stig fyrir lið sitt og tryggja því 1. sæti með því að fá sér tattú. Vel gert.

Af úrslitunum í fyrstu umferðinni fannst mér sigur Vals á FH bera af. Þetta var frábær byrjun fyrir þá þó að FH muni pottþétt koma sterkari til baka eftir þetta. Bróðir minn Joe æfði með Val í vetur og hann var mjög hrifinn af þeim og taldi að þeir gætu staðið sig vel í ár. Þessi úrslit komu því ekki á óvart. Joe byrjar sjálfur tímabil sitt með Selfossi á mánudag og ég hlakka mikið til sumarsins sem stuðningsmaður Selfyssinga líka.

Þrátt fyrir tap í fyrsta leik þá er frábært að vera byrjaður aftur og ég hlakka til að spila á Laugardalsvelli á yndislega græna vellinum þar á laugardag.
banner
banner
banner
banner
banner