Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 20. desember 2004 08:31
Magnús Már Einarsson
Zinedine Zidane - Real Madrid (5)
Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði. Við ætlum að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði og á aðfangadag jóla verður besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi verður einn leikmaður kynntur með pistli og í dag er það sá sem varð númer 16 í valinu:


5. Zinedine Zidane

Zinedine Zidane fæddist í Marseille þann 26.júní árið 1972 og því er hann 32 ára í dag. Það sást strax þegar að Zidane lék sér í fótbolta á götum úti í fátætkrarhverfum Marseille að þarna var mikið efni á ferð. Ungur hóf hann að æfa með US Saint-Henri club. Síðar gekk hann til liðs við Septemes Sports Olympiques.

Fjórtán ára fór hann til Cannes og átti hann að vera þar til reynslu í þrjá daga en sú dvöl varð heldur lengri. Aðeins Sextán ára gamall spilaði Zidane sinn fyrsta leik með aðalliði Cannes.

Árið 1992 gekk Zidane til liðs við Bordeaux. Marseille vildi einnig fá Zidane en áhugi Bordeaux á þessum leikna miðjumanni var meiri en hjá Marseille. Zidane tók smá tíma í að aðlagast hjá Bordeaux en þegar að hann gerði það þá bætti liðið sig meira og meira og tímabilið 1995/1996 komst liðið í gegn um Intertoto keppnina og síðan í úrslit Evrópukeppni Félagsliða.

Þetta var seinasta ár Zidane í Frakklandi því að um sumarið gekk hann til liðs við Juventus. Hann tók líkt og hjá Bordeaux smá tíma í að aðlagast en eftir það sprakk Zidane út.

Juventus sigraði Ofurbikar Evrópu, Heimsmeistarkeppni Félagsliða, Ofurbikarinn á Ítalíu, Evrópukeppni Félagsliða, Serie A tvívegis og þá komst liðið í úrslit Meistaradeildarinnar árið 1997 og 1998.

Zidane lék sinn fyrsta landsleik með Frökkum gegn Tékkum í ágúst 1994. Zidane skoraði tvö mörk í þessum fyrsta landsleik sínum. Á EM 1996 var ekki pláss fyrir Eric Cantona í leikmannahópi Frakka, Zidane hélt honum fyrir utan liðið og voru margir undrandi á því á þeim tíma.

Árið 1998 þegar að HM var haldið í Frakklandi varð Zidane þjóðhetja þegar að hann skoraði tvö mörk með skalla í 3-0 sigri Frakka á Brasilíumönnum í úrslitaleik mótsins. Zidane fékk reyndar rautt spjald í fyrsta leiknum gegn Sádi-Arabíu en til marks um það hversu sterkur hann er andlega þá koma hann til baka eftir að hafa tekið út tveggja leikja bann og var einn besti maður mótsins.

Um haustið árið 1998 kom Zidane til Íslands og lék hann á Laugardalsvelli í 1-1 leiknum fræga. Zidane lagði upp mark Frakka í leiknum fyrir Christophe Dugarry. Sama ár var Zidane valinn besti leikmaðurinn í heiminum.

Á EM 2000 var það sama upp á teningnum. Zidane lék frábærlega og Frakka sigruðu mótið. Tveimur árum síðar á HM í Suður Kóreu og Japan þá var Zidane meiddur og lék hann aðeins einn leik með Frökkum í mótinu, gegn Dönum í lokaleik riðlakeppnarinnar. Frakkar skoruðu ekki mark og duttu út í riðlakeppninni en margir vildu meina að hefði Zidane verið heill heilsu hefðu Frakkar ekki lent í þessari stöðu.

Á EM í Portúgal síðastliðið sumar skoraði Zidane þrjú mörk og komu tvö þeirra gegn Englendingum undir blálokin þar sem að hann tryggði Frökkum 2-1 sigur. 1-0 tapið gegn Grikkjum í 8-liða úrslitum mörkuðu endalok landsliðsferils Zidane en hann lék 93 landsleiki fyrir Frakka og skorað í þeim 27 mörk. Franska landsliðið tapaði ekki í neinum af þeim leikjum sem að Zidane skoraði í.

Árið 2001 var Zidane keyptur til Real Madrid fyrir um 46 milljónir punda. Á fyrsta tímabilinu eða um vorið 2002 þá sigraði Zidane Meistaradeildina í fyrsta sinn en hann skoraði frábært sigurmark í úrslitaleiknum þegar að Real Madrid sigraði Bayern Leverkusen 2-1. Tímabilið 2002-2003 skoraði Zidane níu mörk í 33 leikjum þegar að Real Madrid sigraði La Liga.

Zidane var valinn bestur í heimi hjá FIFA 2003 en hann vann einnig verðlaunin 1998 og 2000. Á síðasta leiktímabili gekk Real Madrid illa og þá sérstaklega á seinni hluta tímabilsins. Zidane var ekkert að afsaka sig heldur sagði hann ,,Sannleikurinn er einfaldur, ég spilaði illa."

Þessi frábæri franski miðjumaður mun vonandi halda áfram að skemmta fólki með frábærri tækni með boltann á næstunni.

Vissir þú þetta um Zidane:
Þegar að hann skoraði sitt fyrsta mark með aðalliði Cannes fékk hann Renault Clio gefins frá formanninum sem að hafði lofað að gefa Zidane bíl þegar að hann myndi skora fyrsta mark sitt.

Foreldrar hans fluttu til Frakklands frá Alsír.

Konan hans heitir Veronique og er dansari frá Spáni.

Þau eiga tvö börn Enzo (sem að er skírður eftir Enzo Francescoli) og Luca.

Zidane langar að keppa í tennis þegar að hann hættir í fótboltanum. Andre Agassi er átrúnaðargoð hans í Tennisnum. Eitt sinn voru þeir á sama hóteli en Zidane var of feiminn til að fara og heilsa upp á Agassi.

Sjá einnig:
Nr. 6: Rio Ferdinand (Manchester United)
Nr. 7: Steven Gerrard (Liverpool)
Nr. 8: Adriano (Inter Milan)
Nr. 9: Ruud van Nistelrooy (Manchester United)
Nr. 10: Gianluigi Buffon (Juventus)
Nr. 11: Eiður Smári Guðjohnsen (Chelsea)
Nr. 12: Ronaldo (Real Madrid)
Nr. 13: Arjen Robben (Chelsea)
Nr. 14: Sol Campbell (Arsenal)
Nr. 15: Patrick Vieira (Arsenal)
Nr. 16: Alessandro Nesta (AC Milan)
Nr. 17: Wayne Rooney (Manchester United)
Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
Nr. 20: John Terry (Chelsea)
Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
Nr. 23: Kaká (AC Milan)
Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)
Athugasemdir
banner
banner
banner