Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   sun 08. maí 2005 07:54
Hafliði Breiðfjörð
Spá Fótbolta.net: 7. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá Þrótturum 7. sæti í efstu deild karla 2005.  Ellefu sérfræðingar spá í deildina fyrir okkur þetta árið en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig.  Þróttur fékk 46 stig út úr þessu

Sérfræðingarnir sem spáðu eru:
Aðalsteinn Víglundsson, Ásgeir Sigurvinsson, Bjarni Jóhannsson,  Guðmundur Hreiðarsson, Hörður Magnússon, Logi Ólafsson, Njáll Eiðsson, Pétur Pétursson, Samúel Örn Erlingsson, Sigurður Jónsson og Víðir Sigurðsson.



Hvað segir Sigurður?
Sigurður Jónsson þjálfari Víkinga er sérstakur álitsgjafi okkar um efstu deild karla. Sigurður hefur séð mikið af leikjum á undirbúningstímabilinu og hefur gríðarmikla þekkingu á íslenska boltanum.

Um liðið 
Hjá Þrótturum eru Ásgeirs einkennin alveg út í gegn. Þeir reyna alltaf að spila frá aftasta manni og byggja sóknirnar bara upp frá markmanninum. Reyna að spila með stuttum sendingum, reyna ekki mikið langar sendinga upp völlinn, þeir spila mikið í lappirnar og tekst það oft ágætlega á köflum en þegar það klikkar eru þeir oft berskjaldaðir varnarlega. Maður hefur séð það í leikjum núna að þeir eru að ofspila boltanum. Þeir eru étnir og gefa fá færi á sér. En það er virðingarvert að þeir reyna alltaf að halda boltanum innan liðsins og spila sín á milli, það er góð hreyfing á liðinu og þeir eru með skemmtilega stráka inn á milli. En það getur líka verið þeirra veikleiki að þeir þyrftu stundum aðeins að einfalda leikinn hjá sér að mínu mati, þeir eru stundum að spila of mikið. Þeir tapa boltanum stundum á slæmum stöðum og hafa kannski verið að fá á sig mark í gegnum það.

Þeirra leikur byggist mikið upp á fyrirgjöfum og þetta gæti oltið mikið á því hversu sterkir þeir verða fram á við. Ef að Slóvakinn er þessi maður sem getur skorað 10 mörk þá eiga þeir alveg möguleika á að gera ágætis hluti.

Styrkleikar:
Þeir hafa verið mjög öflugir á miðjunni. Það er svona þeirra helsti styrkleiki. Þeir eru með Pál Einarsson þar sem öflugur þarna og klókur leikmaður. Lið hafa verið að lenda í vandræðum þeirra því þeir eru fjölmennir og það er erfitt að dekka þá. Þeir spila auðvitað þetta “Ásgeirskerfi” 3-5-2 og það hefur reynst þeim vel. Markmaðurinn kominn aftur, það er mikill styrkur fyrir þá og þeir hafa verið í vandræðum með þessa stöðu. En það er ánægjulegt að Fjalar sé kominn aftur, hann er í fantaformi.

Þeir þekkja líka hvorn annan mjög vel og hafa verið lengi saman. Það er mikil samheldni í liðinu og þeir eru tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir hvern annan. Það er líka góð stemmning í kringum Þróttarana og Köttararnir eru mjög skemmtilegir stuðningsmenn.

Það skiptir líka miklu máli hvernig þeir byrja. Þeir eiga erfiðan leik uppi á Skaga í fyrsta leik og fyrstu 4-5 leikirnir koma til með að skipta gríðarlegu máli eins og hjá öllum liðunum.

Veikleikar
Þeir eru að gefa alltof mikið af færum á sér og eru ekki nógu þéttir varnarlega. Þeir þurfa að loka betur eftir því sem ég hef séð í vetur. Sóknarleikurinn veltur svo allur á þessum tveimur leikmönnum, Sævari og slóvakanum Josep Marunikak? En þeir hafa misst góða stráka eins og Hjálmar og svo Sören. Þó svo Sören hafi ekki verið að gera mikið í fyrra þá var hann að klára færin þegar hann var með sjálfstraustið í lagi. Sóknin er því stórt spurningamerki. Sævar hefur verið að spila í neðri deildunum og á eftir að sanna sig sem úrvalsdeildarleikmaður, að hann geti skorað í úrvalsdeild. Svo er bara spurning með Slóvakann en þeir hafa verið að skapa sér fullt af færum en prósentunýtingin er mög slæm, allavega í þeim leikjum sem ég hef séð. Þeir hafa verið að skapa sér fullt af færum, til dæmis á móti Val þar sem þeir unnu vissulega 2-1 en þeir fengu fullt af færum sem þeir hefðu átt að nýta og eins í fleiri leikjum sem ég hef séð.

Lykilmaður
Það verður gaman að fylgjast með Daníeli Hafliðasyni. Hann hefur verið að spila mjög vel í vetur og verið einn mest skapandi leikmaðurinn fyrir þá. Hann hefur verið í frjálsri stöðu á miðjunni þar sem hann nýtur sín mjög vel þar sem hann er mikið í boltanum og er að keyra á varnirnar.

Spennandi að fylgjast með
Það verður gaman að fylgjast með Fjalari sem nú er kominn aftur. Hann þarf að sanna það að hann er góður markmaður en ekki efnilegur lengur. Eins verður spennandi að sjá hvernig Víkingurinn Daníel Hafliðason kemur til með að spila í Úrvalsdeildinni, ég hlakka mikið til að sjá það.




Þjálfarinn:
Ásgeir Elíasson er reyndur þjálfari sem hefur kynnst ýmsu í boltanum. Hann verður 55 ára síðar á árinu en hann er nú að þjálfa Þrótt fimmta sumarið í röð. Hann þjálfaði liðið einnig 1981-1984 og er því vel kunnugur liðinu. Auk þess hefur Ásgeir meðal annars þjálfað Fram, íslenska landsliðið og U-21 árs landslið Íslands en hann þjálfaði A-landsliðið frá 1991-1995.

Viðtal okkar við Ásgeir

Völlurinn:
Þróttarar leika heimaleiki sína á þjóðarlekvangnum í Laugardal og er annað tveggja félaga á Íslandi sem það gerir þetta sumarið.   Tvær stúkur eru sitthvoru megin við völlinn og taka þær saman um 7 þúsund áhorfendur.  Að auki við það komast um 12 þúsund áhorfendur í stæði. Án efa glæsilegasti völlur landsins.

Klúbburinn:
Köttarar eru eitt lífsseigasta fyrirbærið í íslenskri knattspyrnu. Ekki er þetta eiginlegur “klúbbur” heldur eru þeir er mæta á leiki og styðja Þrótt, taldir til Köttara. Köttarar hafa gefið út geisladiska í þau tvö síðustu skipti sem Þróttur hefur verið í efstu deild og í bæði skiptin fallið. Það verður ekki gert í ár og hafa helstu upptökustjórar félagsins verið undir eftirliti til að koma í veg fyrir slíkt. Hugmynd var að gefa út ljóðabók í staðinn, kannski kemur hún út um jólin?

Ef einhver hefur ekki orðið sér út um þessa diska ennþá eru þeir vinsamlegast beðnir um að lagfæra það hið snarasta. Hæft er að fá þá í Félagshúsi Þróttar, þetta er snilldin ein! Það kostar ekki neitt í klúbbinn,  einungis þarf að styðja sitt lið af lífi og sál.  Innifalið er óendanleg gleði yfir því að styðja Þrótt, hreint loft og óborganlegur félagsskapur.

Lukkudýr:
Innan stuðningsmanna Þróttar eru svo margir skemmtilegir og skrýtnir karakterar að það hefur þótt algjör óþarfi að hafa einhvern/eitthvað skoppandi út á velli

Aðgangseyrir:
1200 krónur en frítt fyrir 16 ára og yngri

Leikskrá:
Verið er að athuga þann möguleika alvarlega en liggur ekki fyrir ennþá.

Vefsíðumál:
Vefsíða Þróttara kemur reglulega með nýjustu fréttir af félaginu sem er mjög gott mál.  Á hana vantar samt ferskleika og einfaldleika auk þess sem spjallborðið er steindautt.  Er líka stundum mjög hægvirk sem er ókostur. 

Stuðningsmenn:
 Meðal þekktra stuðningsmanna Þróttara eru: Jón Ólafsson tónlistarmaður, Tvíburarnir Gunnar og Ásmundur Helgasynir, Halldór Gylfason leikari og tónlistarmaður, Eyjólfur Kristjánsson poppari, Hlynur Áskelsson betur þekktur sem Ceres 4, Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, Eyjólfur sundkappi, Þorvaldur Davíð leikari og faðir hans Kristján Þorvaldsson ritstjóri Séð og Heyrt.

Spáin

nr. Lið Stig
1 ?? ?
2 ?? ?
3 ?? ?
4 ?? ?
5 ?? ?
6 ?? ?
7 Þróttur 46
8 Fram 36
9 ÍBV 33
10 Grindavík 16

Um félagið

Knattspyrnufélagið Þróttur
Stofnað 1949

Titlar:
Reykjavíkurmeistarar 1966 og 2002

Búningar:
Uhlsport

Aðalbúningur:

Röndótt rauð/hvít treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar

Varabúningur:
Svört treyja, svartar buxur, svartir sokkar

Opinber vefsíða:
Trottur.is


Komnir og farnir

Nýjir frá síðasta sumri:
Dusan Jaic (1979) úr Skáli í Færeyjum
Edilon Hreinsson (1978) úr Haukum
Jón Gunnar Gunnarsson (1975) úr Fram
Helgi Sævarsson (1972) úr Haukum
Henning Jónasson (1983) úr KR
Sævar Eyjólfsson (1978) úr Haukum
Orri Rúnarsson (1985) frá Leiftri/Dalvík
Jozef Maruniak (1975) frá Slóvakíu
Kristinn Hafliðason frá KR
Farnir frá síðasta sumri:
Sören Hermansen (1970)
Hjálmar Þórarinsson (1986) í Hearts í Skotlandi
Jónas Guðmannsson (1983) í Aftureldingu
Komnir til baka úr láni:
Hans Sævar Sævarsson (1980) úr Aftureldingu
 

Leikmenn Þróttar

nr. Nafn Staða
1. Fjalar Þorgeirsson Markvörður
2. Hilmar Ingi Rúnarsson Varnarmaður
3. Hallur Hallsson Miðjumaður
4. Ólafur Tryggvason Varnar/miðju
5. Erlingur Þór Guðmundss Varnarmaður
6. Eysteinn Pétur Lárusson Varnarmaður
7. Freyr Karlsson Varnar/miðju
8. Páll Einarsson Miðjumaður
9. Henning E. Jónasson Varnar/framherji
10. Daníel Hafliðason Miðjumaður
11. Sævar Eyjólfsson Framherji
13. Jens Elvar Sævarsson Varnarmaður
14. Halldór Arnar Hilmarsson Miðjumaður
17. Jozef Maruniak Framherji
18. Ingvi Sveinsson Varnarmaður
19. Guðfinnur Þórir Ómarsson Framherji
20. Dusan Jaic Varnarmaður
21. Gauti Kristjánsson Miðjumaður
22. Davíð Logi Gunnarsson Sóknarmaður
23. Haukur Páll Sigurðsson Miðjumaður
24. Ari Gunnar Gíslason Miðjumaður
25. Andri Fannar Helgason Markmaður
27. Edilon Hreinsson Miðjumaður
28, Orri Rúnarsson Varnarmaður
 

Leikir Þróttar

Dags: Tími Leikur
16. maí 17:00 ÍA - Þróttur
22. maí 14:00 Þróttur - Fylkir
27. maí 20:00 Fram - Þróttur
31. maí 19:15 Þróttur - Keflavík
11. júní 14:00 FH - Þróttur
16. júní 19:15 Þróttur - ÍBV
23. júní 19:15 KR - Þróttur
26. júní 19:15 Grindavík - Þróttur
30. júní 19:15 Þróttur - Valur
12. júlí 19:15 Þróttur - ÍA
17. júlí 19:15 Fylkir - Þróttur
25. júlí 19:15 Þróttur - Fram
7. ágúst 18:00 Keflavík - Þróttur
15. ágúst 19:15 Þróttur - FH
21. ágúst 18:00 ÍBV - Þróttur
28. ágúst 19:15 Þróttur - KR
11. sept 14:00 Þróttur - Grindavík
17. sept 14:00 Valur - Þróttur

Athugasemdir
banner
banner
banner