Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 15. apríl 2019 15:15
Arnar Daði Arnarsson
Rúrik gerir það gott sem fyrirsæta - Þarf að neita tilboðum
Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Knattspyrnumaðurinn og fyrirsætan, Rúrik Gíslason var viðmælandi Auðuns Blöndal í sjónvarpsþáttunum Atvinnumennirnir Okkar á Stöð 2 í gærkvöldi.

Rúrik er leikmaður Sandhausen í þýsku B-deildinni en auk þess situr hann fyrir í myndatökum enda er hann einn af myndarlegri knattspyrnumönnum í heimi og hefur vinsældir hans breiðst víða út.

Rúrik lék með Íslandi á HM í Rússlandi síðasta sumar og fyrir mótið var hann með ekki nema 36 þúsund fylgjendur á Instagram. Þegar leið á mótið voru fylgjendur hans hinsvegar komnir í 1,3 milljónir talsins.

„Þetta var mega breyting. Það var einhver leikkona frá Argentínu sem setti á Twitter og þá fór þetta að rúlla."

Í þættinum í gær fór Auddi Blö til að mynda með Rúriki í stúdíó þar sem Rúrik sat fyrir fáklæddur. Rúrik segist fá miklar tekjur fyrir fyrirsætustörfin en hann segist þó neita fullt af tækifærum þar sem knattspyrnan gengur fyrir.

„Í síðasta mánuði, var ég með meiri tekjur fyrir fyrirsætustörf en fótbolta. Þetta getur skipt máli, mig langar að taka þátt í þessu. Ég er fyrst og síðast fótboltamaður, ég hef aldrei sleppt æfingu eða leik út af Instagram," sagði Rúrik í þættinum en þrátt fyrir að hann fái hærri tekjur fyrir fyrirsætustörf þá er Rúrik á besta samningi sínum á ferlinum hjá Sandhausen.

Hann blæs á þær sögur að þetta trufli hans feril sem knattspyrnumann.

Í þættinum ræddi Auddi Blö við umboðsmann Rúriks í fyrirsætastarfinu. Þar sagði hún til að mynda að Rúrik væri betri en David Beckham og eftir knattspyrnuferilinn gæti Rúrik haft nóg að gera sem fyrirsæta.

Hér að neðan má sjá mynd sem Rúrik setti á Instagram síðu sína. Þar er hann á leiðinni í myndatöku og Auðunn Blöndal fylgir honum í vinnuna.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner