fim 13. júní 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Arnar Gunnlaugs: Viljum gera heimavöllinn að vígi
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vígsluleikur í Víkinni annað kvöld.
Vígsluleikur í Víkinni annað kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. tekur á móti HK í 8. umferð Pepsi Max-deildarinnar á nýjum gervigrasvelli sínum í Víkinni annað kvöld. Um er að ræða vígsluleik.

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings segir mikla tilhlökkun í Víkingum að spila fyrsta leikinn á nýjum velli.

„Við erum búnir að labba framhjá vellinum núna síðustu vikur og þetta lítur mjög vel út," sagði Arnar í samtali við Fótbolta.net. Liðið æfir á vellinum í fyrsta skipti í kvöld en fyrstu heimaleikir Víkings hafa farið fram á gervigrasvellinum í Laugardal, heimavelli Þróttar R. í Inkasso-deildinni.

„Það er fínt að vera kominn á heimavöll þrátt fyrir að okkur hefur liðið vel í Laugardalnum þá er þetta aldrei eins. Við þurfum að nýta okkur heimavöllinn og búa til gryfju tilfinningu," sagði Arnar sem býst við fjölmenni á leiknum á morgun.

Víkingur er með fjögur stig í 11. sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Valur sem situr á botni deildarinnar. Liðið er enn án sigurs í deildinni. Arnar segir að liðið sé þyrst í fyrsta sigurinn og vonar að fyrsti sigurinn komi annað kvöld.

„Það er gríðarlega mikilvægt að byrja á sigri á nýjum heimavelli. Liðin í kringum okkur eru öll með sterka heimavelli. Þetta skiptir miklu máli í stigasöfnuninni. Við viljum gera þetta að vígi," sagði þjálfari Víkinga sem samkvæmt síðustu talningu segir að allir leikmenn liðsins séu klárir í leikinn annað kvöld.

Víkingur hefur gert tvö jafntefli í síðustu þremur leikjum og aðeins skorað eitt mark í þeim leikjum. Það mark kom í 1-1 jafntefli liðsins gegn ÍBV.




8. umferð Pepsi Max-deildarinnar:

föstudagur 14. júní
19:15 Fylkir-Breiðablik (Würth völlurinn)
19:15 Víkingur R.-HK (Víkingsvöllur)
19:15 FH-Stjarnan (Kaplakrikavöllur)

laugardagur 15. júní
16:00 ÍA-KR (Norðurálsvöllurinn)
16:00 Valur-ÍBV (Origo völlurinn)
17:00 KA-Grindavík (Greifavöllurinn)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner