Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 12. október 2019 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ansu Fati 16 ára í U21 landsliðinu
Mynd: Getty Images
Hinn 16 ára gamli Ansu Fati hefur fljótt skotist upp á stjörnuhimininn hjá Barcelona. Núna er hann kominn í U21 landslið Spánar, 16 ára.

Hann fékk tækifæri í aðalliði Katalóníustórveldisins í upphafi tímabils vegna meiðsla hjá leikmönnum eins og Lionel Messi og Luis Suarez. Hann nýtti tækifærið til hins ýtrasta.

Hann varð næst yngsti leikmaðurinn í sögunni til þess að spila fyrir Barcelona í spænsku úrvalsdeildinni þegar hann spilaði gegn Real Betis í ágúst. Hann varð tæpri viku síðar yngsti leikmaðurinn í sögu Barcelona til að skora deildarmark.

Fati er fæddur í Gínea-Bissá, en hjá spænska knattspyrnusambandinu hafði fólk hraðar hendur eftir að 16 ára gamall strákur fór að sýna kúnstir sínar í aðalliði Barcelona.

Fati hefur búið á Spáni frá sex ára aldri og núna er hann kominn með spænskan ríkisborgararétt og því löglegur með spænska landsliðinu.

Það er núna búið að velja hann í U21 landsliðið fyrir leik gegn Svartfjallalandi á þriðjudagi. Hann kemur inn í hópinn fyrir liðsfélaga sinn hjá Barcelona, Carles Perez, sem er meiddur.

Upphaflega var planið að velja Fati í U17 landsliðið fyrir Heimsmeistaramótið í þeim aldursflokki, sem fer fram seinna í mánuðinum. Samkvæmt heimildum ESPN þá var Barcelona hins vegar ekki hrifið af þeirri hugmynd. Börsungar vilja ekki missa strákinn í allt að fimm vikur.

Barcelona telur einnig að Fati sé of góður til þess að vera í U17 landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner