Teitur Þórðarson var í dag rekinn úr starfi þjálfara botnliðs KR í Landsbankadeildinni og Logi Ólafsson tók við starfinu af honum. Við ræddum við Teit nú í kvöld eftir að leikmönnum liðsins hafði verið tilkynnt um þjálfaraskiptin. Hann sagði að það sé leiðinlegt að yfirgefa liðið nú.

Þrátt fyrir að vera rekinn úr starfinu núna skilur hann sáttur við KR. ,,Mér hefur liðið vel í KR allan tímann og hef ekkert út á þá að setja. Mér finnst bara leiðinlegt að fá ekki að fylgja þessu eftir en svona er þetta," sagði Teitur en ákvörðunin um að hann hætti var tekin eftir fund hans með KR í dag.
,,Þessi fundur okkar í dag sem leiðir til þess að leiðir skilja kom mér svolítið á óvart því við erum búnir að fara taplausir í gegnum fimm leiki núna og þetta hefur gengið þokkalega. Það kemur mér svolítið á óvart," sagði Teitur sem hefði frekar átt von á að missa starfið fyrr í sumar.
,,Ég bjóst ekki við þessu á þessum tímapunkti en ég hefði getað átt von á því fyrr í vor þegar við vorum í miklum vandræðum."
KR hefur gengið betur upp á síðkastið eftir hörmulegt gengi framan af sumri og í síðust fimm leikjum hefur liðið unnið einn og gert fjögur jafntefli.
,,Spilamennskan hefur stórskánað og liðið hefur tekið stig úr síðustu fjórum leikjum og við erum taplausir í síðustu fimm leikjum og erum með góða möguleika í Evrópukeppninni. Ef þetta er það sem þarf til að koma liðinu virkilega á skrið þá er það bara besta mál," sagði Teitur sem er ekki hættur í þjálfun þrátt fyrir að missa starfið á þessum tímapunti.
,,Alls ekki, ég er búinn að fá fyrirpsurnir erlendis frá í allt vor og svo verð ég bara að sjá hvað ég vil gera með það. Það er mest úr Skandinavíu. Það er ekkert víst að ég taki við starfi erlendis, nú ætla ég bara að taka mér smá frí og svo sé ég bara til hvað ég geri."
Teitur sem hefur verið mest í Noregi undanfarin ár auk Eistlands kom til KR fyrir tímabilið 2006 eftir langa veru erlendis. Hann útilokar ekki að þjálfa hér á Íslandi áfram.
,,Ég er rétt að kynnast íslenska boltanum eftir að hafa verið í burtu í 30 ár og það er bara jákvæð upplifun af því. Ef mér byðist að þjálfa hér þá gæti vel verið að ég myndi íhuga það."
Athugasemdir