Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 30. júlí 2007 18:57
Hafliði Breiðfjörð
Jónas Kristinsson í viðtali um brottvísun Teits Þórðarsonar
Jónas Kristinsson.
Jónas Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Logi Ólafsson á æfingu KR í dag.
Logi Ólafsson á æfingu KR í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Eins og við greindum frá fyrr í dag var Teiti Þórðarsyni sagt upp störfum sem þjálfara KR í dag og Logi Ólafsson ráðinn í hans stað út tímabilið. Við ræddum við Jónas Kristinsson formann KR-Sport og spurðum hann afhverju þeir ráðast í þessa breytingu núna.


,,Við erum bara í þeirri stöðu að þurfa að rífa okkur upp úr þessu júmbósæti og það er ljóst að undanfarnar umferðir hefur liðið verið að batna en það vantar einhvern neista sem vonandi kemur með þessari breytingu," sagði Jónas í viðtali við Fótbolta.net

Teitur Þórðarson hættir því með liðið sem hann tók við haustið 2005 og stýrði í annað sætið í deild og bikar á síðustu leiktíð en í ár hefur árangurinn ekki komið og liðið verið í fallsæti allt tímabilið.

,,Þetta er allt gert í sátt og samlyndi við þann þjálfara sem hefur starfað feykilega vel hjá okkur og breytt miklu í okkar hugsunargangi," sagði Jónas. ,,Það er hinsvegar einhver neisti sem hefur vantað hérna sem hefur ekki náðst á milli leikmannahóps og þjálfara. Það er það sem við höfum vonast eftir að ná með þessari breytingu."

Ákvörðunin um að ráða Loga Ólafsson var tekin eftir fund stjórnar KR í morgun og Logi var mættur til að stjórna sinni fyrstu æfingu með liðið á aðalvellinum við Frostakskjól klukkan 17:30 í dag.

,,Við í stjórninni tókum fund hérna eldsnemma í morgun og svo tók ég símtal við Loga og við ræddum aðeins við hann og hann játti starfinu og hann er mættur hérna núna," sagði Jónas en eftir að tímabilinu lýkur munu Logi og KR ræða um framhaldið.

Jónas sagði að ástæða þessara breytinga hafi ekki verið vegna ósættis í leikmannahópi KR.

,,Alls ekki, það er mikil virðing leikmanna fyrir Teiti og hann er hér með hóp manna sem hann hefur komið í geysilega fínt líkamlegt ástand en það hefur eitthvað vantað uppá milli leikmanna og hans. Eitthvað sem við getum ekki skýrt út og því erum við að gera þessa breytingu til að sjá hvort við fáum þann neista sem til þarf til að vera áfram í þessari Landsbankadeild."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner