þri 01. mars 2022 23:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Pétur Viðars hættur (Staðfest) - „Rosalega sáttur með minn feril"
Íslandsmeistarar 2012
Íslandsmeistarar 2012
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hissa
Hissa
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kíkti aðeins í Víking árið 2008
Kíkti aðeins í Víking árið 2008
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur varð tvöfaldur meistari með 2. flokki FH árið 2006.
Pétur varð tvöfaldur meistari með 2. flokki FH árið 2006.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Viðarsson er hættur í fótbolta, hefur lagt skóna á hilluna. Þetta staðfesti hann í viðtali við Fótbolta.net í dag. Pétur er 34 ára gamall varnarmaður sem uppalinn er í FH og lék allan sinn feril, fyrir utan eitt tímabil, með uppeldisfélaginu. Tímabilið 2008 lék hann á láni hjá Víkingi.

Á síðasta tímabili skoraði hann tvö mörk í nítján deildarleikjum. Seinna markið hans kom í næst síðustu umferð gegn Breiðabliki og hafði mikil áhrif á titilbaráttuna.

„Ég tók þessa ákvörðun síðasta haust, eftir tímabilið. Ég var búinn að pæla í þessu í smá tíma, er með rekstur og kominn með barn númer tvö. Mér finnst vera rétti punkturinn núna að kalla þetta," sagði Pétur í dag.

„Ég hefði auðvitað viljað enda þetta betur, þ.e.a.s. að FH hefði gengið betur. Það hefði verið skemmtilegt að vinna titil eða vera nær í titilbaráttunni. Fyrir mér er það samt bara titill eða ekki neitt. Það hefði verið skemmtilegra. En að skora í næst síðustu umferðinni og hafa einhver áhrif á titilbaráttuna var ágætis endir úr því sem komið var. Þetta var skemmtilegur leikur á Krikavellinum, þessi í næstsíðustu umferðinni. Maður hefur, í gegnum ferilinn, viljað miða hærra en þetta og það voru vonbrigði að ná ekki titli."

Hafa FH-ingar reynt að fá þig til að endurskoða þá ákvörðun að hætta?

„Nei, það hafa bara einhverjir aðilar spurt mig hver staðan væri. Ég er mágur hans Davíðs, yfirmanns fótboltamála, og við hittumst oftar en ekki. Hann vissi alveg mína stöðu og hefur ekkert mikið verið að suða í mér. Það hafa einhverjir í kringum mig verið að spyrja mig og ég hef sagt þeim að það sé kominn tími á þetta og hingað til hef ég verið látinn í friði, ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt," sagði Pétur léttur.

Hefuru velt fyrir þér þeim möguleika að spila í neðri deildunum?

„Nei, ein af ástæðunum fyrir því að ég er að taka þessa ákvörðun er til þess að eiga meiri tíma fyrir fjölskylduna og fyrirtækin. Ég er ekki að hlaupa til í leit að boltum til þess að vera með í, það er ekki eitthvað sem ég er að leitast eftir. Ég er heldur ekki að skrifa einhverja yfirlýsingu um hitt og þetta - það getur vel verið að maður sparki í bolta einhvern tímann aftur. En eins og staðan er núna er ég mjög sáttur með þetta."

Ef þú horfir til baka á ferilinn, genguru sáttur frá borði?

„Já, ég er rosalega sáttur með minn feril og minn tíma upp í Kaplakrika. Mörg af mínum bestu árum hafa verið þar. Ég og kærastan byrjuðum saman árið 2009 þegar ég byrjaði að spila fyrst reglulega fyrir FH. Við saman höfum ekki þekkt neitt nema að ég sé í fótbolta, þetta er breyting fyrir alla á heimilinu."

„Þetta hefur verið alveg geggjaður tími og Evrópuferðirnar... allir leikirnir sem maður hefur spilað þar eru ótrúleg ævintýri. Maður hefur heimsótt lönd sem maður hefði aldrei ímyndað sér að fara til, þar á meðal Hvíta-Rússland sem er mikið í umræðunni í dag. Svo eru það titlarnir, bikartitill og bikarúrslitaleikir. Fyrir mig er þetta búið að vera alveg æðislegt."


Varstu einhvern tímann nálægt því að fara frá FH og spila með einhverju öðru liði á Íslandi?

„Nei, ég hef aldrei verið nálægt því. Það hefur lítið verið talað við mig af einhverjum öðrum liðum, kannski hafa þau bara vitað hvar ég stend eða eitthvað. Ég hef alltaf verið grjótharður FH-ingur og allar viðræður hafa verið einstaklega stuttar. Ég hef bara látið menn vita að ef ég myndi spila þá væri það upp í Kaplakrika, það hefur bara verið þannig."

Myndiru segja að þú fylgist mikið með fótbolta þegar þú ert ekki að spila hann sjálfur?

„Já, ég fylgist alveg með fótbolta en ég er ekkert endalaust að horfa. Ég horfi af og til á enska boltann, reyndar aðeins minna þessa dagana. Ég þykist allavega ætla að mæta á leiki í sumar, þangað til annað kemur í ljós. Auðvitað ætla ég líka vera upp í bústað og svona. Ég horfi alveg eitthvað á fótbolta en er ekkert að stressa mig alltof mikið ef ég missi af leikjum, er voða rólegur yfir því."

Hvernig líst þér á FH liðið í dag?

„Mjög vel, ég er ánægður með það sem þeir hafa verið að gera undanfarið og mennina sem þeir hafa verið að fá. Til dæmis bind ég miklar væntingar við Kristin Frey, mér hefur alltaf fundist erfitt að mæta honum á vellinum og vona að hann eigi eftir að standa sig vel hjá okkur. Svo er ég líka ánægður með það sem þeir voru að gera í gær, voru að ná sér í nýjan bakvörð og semja áfram við ungu strákana. Mér sýnist þeir vera gera góða hluti."

„Ég hitti líka marga af þessum strákum reglulega. Jónatan er t.d. að aðstoða mig í fyrirtækinu. Ég hitti hann daglega og við förum alltaf reglulega yfir hlutina. Ég er í góðu bandi við þessa stráka og sýnist að þeir verði klárir í þetta eftir rúman mánuð,"
sagði Pétur að lokum.

Hann lék 197 deildarleiki fyrir FH á ferlinum og skoraði átta mörk. Þá skoraði hann fimm mörk í 35 bikarleikjum og eitt mark í 33 Evrópuleikjum.

Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari á ferlinum. Hér að neðan, og hér til hliðar, má sjá nokkrar myndir af ferli Péturs.
Athugasemdir
banner
banner
banner