Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 01. maí 2020 12:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Páll Viðar var sprunginn: Áskorun að koma Þór í deild þeirra bestu
Páll Viðar hætti með Magna síðasta sumar.
Páll Viðar hætti með Magna síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Palli er mikill Þórsari og hann stefnir á að koma félaginu aftur upp í deild þeirra bestu.
Palli er mikill Þórsari og hann stefnir á að koma félaginu aftur upp í deild þeirra bestu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segir í viðtali við Útvarpsþáttinn Fótbolta.net að hann hafi „sprungið" þegar hann þjálfaði Magna á síðustu leiktíð og þegar hann hætti með Þór árið 2014. Núna sé hann hins vegar spenntur fyrir nýrri áskorun.

Palli er mikill Þórsari og stýrði hann liðinu um átta ára skeið, frá 2006 til 2014.

Hann stýrði Þór alla leið í bikarúrslitin 2012 og fór tvisvar sinnum með liðið upp um deild. Eftir slakt tímabil 2014 skipti hann yfir til Völsungs, var þar í tvö ár og fór svo yfir til Magna. Páll Viðar sagði upp hjá Magna í byrjun ágústmánaðar á síðasta ári þegar liðið var í neðsta sæti það sem þá hét Inkasso-deildin.

„Ég hef tvisvar gert þetta. Eftir tímabilið 2014 sé ég að ég er sprunginn og það var sama í fyrra. Ég er bara mjög hreinskilinn með það. Ég hafði ekki þessar lausnir sem ég vildi hafa," sagði Palli.

„Þessi ár voru skemmtileg, við fórum upp og héldum okkur uppi á ævintýralegan hátt. Ég ákvað að vera eitt ár í viðbót og reyna að fylgja því eftir. Þetta var sama þróunin, við vorum í botnsætinu lengi vel framan af. Það voru hlutir hjá liðinu mínu sem ég var búinn að rembast við að laga. Ég sá það ekki breytast og fannst mér þörf á nýju blóði."

Hann er núna kominn aftur í þjálfun og finnur neistann. „Árið 2014 fann ég að ég þurfti pásu. Þá ætlaði ég að taka mér pásu, en fékk hringingu frá Húsavík og þeir voru með verkefni fyrir sprunginn mann; engin viðtöl og ekki neitt, bara heimamenn og góð aðstaða. Ég fór og einbeitti mér bara á fótboltaæfingar og ekkert annað. Þau ár voru góð og svo ætlaði ég að taka mér sumarfrí, en svo komur önnur áskorun sem mér fannst þess virði: Að stýra Magna upp um deild. Þegar ég steig til hliðar var ég viss um að það væru bjartari tímar í fjölskyldulífinu á sumrin."

„En það er nú þannig, og ég held að margir geti tekið undir það, að þegar þitt heimalið kallar eftir þinni þjónustu að þá er voðalega erfitt að stíga til hliðar frá því. Að sjálfsögðu hefði ég ekki tekið þessu ef ég hefði ekki neistann fyrir þessu. Það er áskorun að koma Þór aftur upp í deild þeirra bestu, þar sem Þór á að vera."

Mætti alltaf upp í Þórsheimili
Eins og áður kemur fram er Páll Viðar mikill Þórsari og hefur hann verið lengst af hjá félaginu, sem leikmaður og þjálfari. Hann mætti meðal annars reglulega upp í félagsheimili Þórs þegar hann var að þjálfa hjá öðrum félögum.

„Ég er búinn að vera hérna á hverjum degi, ég mæti hérna alla daga. Ég kem alltaf hingað og fæ mér kaffibolla áður en ég keyri af stað," sagði Palli.

„Þetta hefur verið frekar einhæft hjá mér. Ég ólst hér upp og var í Glerárskóla. Ég ólst upp nokkrum götum ofar og bý þar enn. Börnin mín gengu í Glerárskóla og konan mín var með mér í bekk í Glerárskóla. Núna kenni ég í Glerárskóla og þjálfa í Þór."

„Þetta er eins og mitt annað heimili og hefur alltaf verið þótt ég hafi farið í þessar bílferðir og tekið að mér önnuð verkefni," sagði hann, en viðtalið má hlusta á hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Þórsarar og Magni Grenivík
Athugasemdir
banner
banner
banner