Gylfi Þór Sigurðsson, skærasta stjarna íslenska landsliðsins, ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu í Helsinki í gær. Hann var fyrst spurður að því hvernig fyrstu vikurnar hjá Everton væru búnar að vera?
„Það er búið að vera mikið af leikjum og mikið af ferðalögum, þetta hefur liðið hratt en verið fínar vikur," segir Gylfi.
Hann skoraði draumamark gegn Hadjuk Split í Evrópudeildinni. Er ekki fínt að ná inn svona marki strax?
„Það tók kannski smá pressu af manni að skora fyrsta markið. En það var mikilvægast að komast áfram í Evrópukeppninni. Það var markmiðið okkar. Það kom smá svekkelsis leikur gegn Chelsea, ferðalagið og leikurinn gegn Manchester City sátu í okkur og við vorum þungir."
„Þetta var mjög erfitt prógramm. City á mánudagskvöldi, leikur í Króatíu á fimmtudagskvöldi og svo leikur á sunnudagshádegi gegn Chelsea. Með ferðalaginu og öllu vorum við kannski ekki upp á okkar besta. Ég held að flestir hafi séð það."
Gylfi segist finna sig strax vel í klefanum hjá Everton.
„Strákarnir hafa verið mjög fínir og almennilegir. Það hefur ekki verið neitt vesen að byrja að spjalla við þá og tengja við þá."
Ísland er í fínni stöðu í undankeppni HM en Gylfi býst við mjög erfiðum leik gegn Finnum á laugardag.
„Ef við ætlum okkur einhverja hluti í þessum riðli er Finnland eitt af þessum liðum sem við verðum að taka þrjú stig á móti. Við þurfum að byrja leikinn betur en í fyrri leiknum og spila betri sóknarleik. Það er lítið pláss fyrir mistök það sem eftir er af riðlinum," segir Gylfi en viðtalið er í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























