Stjarnan vann sterkan 2-3 sigur í mögnuðum leik í Kaplakrika í kvöld þegar þeir lögðu FH-inga í 11.umferð Pepsí-deildar karla. Hilmar Árni Halldórsson leikmaður Stjörnunnar sagði sigurinn sætan í virkilega jöfnum og skemmtilegum leik.
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 Stjarnan
„Við vorum með fínt plan sem gekk að mestu eftir, þetta var leikur tveggja hörku liða, á tíma voru þeir betri og á tíma vorum við betri. Það var bara mjög gott að ná í þessi þrjú stig."
Hilmar talaði um að heilt yfir hefði liðið spilað vel þótt FH liðið hefði stjórnað leiknum á ákveðnum köflum þá sýndu þeir góðan karakter í leiknum og fengu stigin þrjú.
„Það komu kaflar þar sem við gátum spilað betur og þeir náðu að halda boltanum vel og færa vel á milli kanta, þeir eru góðir í því. Almennt vorum við bara mjög fínir, sterkir fyrir og skorum góð mörk, sterk þrjú stig."
Hilmar er kominn með 12 mörk í fyrstu 11 leikjunum en er afar hógvær og segist ekkert vera að pæla í markametinu þótt vissulega sé gaman að skora mörk.
„Ég er persónulega ekkert að pæla í því, ég veit að aðrir eru að því en ég er bara að reyna gera það sem ég get. Það er alltaf gaman að skora en ennþá skemmtilegra að sigra."
Athugasemdir
























