Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 03. desember 2019 09:38
Elvar Geir Magnússon
Samþykkt að kaupa dúk á Laugardalsvöll - Stjórnin einhuga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á síðasta stjórnarfundi KSÍ var samþykkt að kaupa nýjan yfirbreiðsludúk á Laugardalsvöll en stefnt er á að mögulegt verði að spila á vellinum þann 26. mars, þegar Rúmenar koma í heimsókn.

Ísland og Rúmenar mætast í undanúrslitum umspilsins um að komast á EM alls staðar 2020 en Ísland á heimaleikjarétt. Erfitt er að spila á Laugardalsvelli á þessum árstíma og talað hefur verið um að leikurinn yrði mögulega færður til Danmerkur.

Stjórn KSÍ er einhuga um að stefna að því að leika á Laugardalsvelli en er meðvituð um þá áhættuþætti sem eru til staðar.

Til að auka möguleika á því að leikið verði á Laugardalsvelli hefur verið samþykkt að kaupa dúkinn og sérstaka jarðhitamæla. Þá var samþykkt að bæta við tímabundnu stöðugildi í vinnu við völlinn.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir engan vafa leika á því að leikirnir verða mjög kostnaðarsamir. Hún segir við Fótbolta.net að kaupin á dúknum sé í raun bara endurnýjun á 20 ára gömlum dúk í þessari lotu.

Viku fyrir leik gegn Króatíu í umspili um sæti á HM í nóvember 2013 var lagt tjald eða svokölluð pulsa yfir völlinn en myndirnar hér að neðan eru frá því. Klara sagði við Fótbolta.net að væntanlega muni sambandið leigja pulsuna þegar nær dregur leiknum í lok mars.

„Vandamálið er fyrst og fremst að við höfum ekki undirhita. Ef við hefðum undirhita væri þetta ekkert vandamál. Við þurfum að vera á tánum í desember, janúar, febrúar og mars að halda vellinum klakafríum og koma í veg fyrir að jarðvegurinn frjósi mikið. Það er erfitt að redda því í mars. Lykillinn er að jarðvegurinn sé ekki frosinn ef við fáum tjaldið yfir völlinn í mars," sagði Kristinn Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli, í viðtali við Fótbolta.net í síðasta mánuði.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner