Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   þri 05. maí 2015 22:05
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Eurovision-Pirlo
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Berlusconi.
Berlusconi.
Mynd: Getty Images
Andrea Pirlo.
Andrea Pirlo.
Mynd: Getty Images
Sei nato e morto qua
nato e morto qua
Nato nel paese
delle mezze verita

Þú fæðist og deyrð í landi hálfsannleikans. Þetta eru skilaboð ítalska rapparans og samfélagsrýnisins Fabri Fibra til hlustenda. Er sama hvort skoðuð sé knattspyrnan eða stjórnmál, alls staðar má finna grugg sem leysist ekki upp þegar hrært er í því. Gruggið þyrlast upp með miklum látum en þegar kyrrð hefur aftur slegið á, fellur það á botninn og allt verðir eins og það áður var.

Knattspyrnan hefur verið greinagóður mælikvarði á ástandið í landinu. Hinn frjálslyndi, bjartsýni tíundi áratugur virtist fara vel með landið. Berlusconi var einfaldlega maðurinn sem allir litu upp til og fór svo að hann hlaut sæti forsætisáðherra, eftir að hafa í gegnum fjölmiðlafyrirtæki sitt veitt íbúum landsins nýmóðins afþreyingu í formi þýddra, fjöldaframleiddra, bandarískra sjónvarpsþátta. Var það mikil tilbreyting frá ríkiseinokuninni á sjónvarpsmarkaði sem áður hafði ráðið ríkjum. Þá sýndi hann sem eigandi AC Milan að hann gat náð árangri. Í Evrópu voru ítölsku liðin á meðal þeirra sterkustu og gátu eytt miklum fjárhæðum í leikmenn frá öllum heimshornum. Ítalski boltinn var sýndur hér á landi á þessum tíma. Úti á grasvöllum landsins mátti finna krakka hlaupa um og leika eftir kúnstir Del Pieros, Gullits og Weahs.

Niðursveifluna þekkja allir. Calciopoli var birtingarmynd þess samfélags sem Fabri Fibra rappar um. Hálfsannleikur, lögbrot og reykfyllt bakherbergi. Kaldhæðni örlaganna réð því svo að svanasöngur Ítalíu á alþjóðavettvangi í bili varð heimsmeistaratitill árið 2006 en eftir það hefur þróunin aðeins verið á einn veg þrátt fyrir einstaka dauðakippi árið 2007 og 2010. Nú liggur einnig fyrir að Berlusconi hefur loks í hyggju að selja félagið sem skaut honum upp á stjörnuhimininn fyrir þrjátíu árum og ótal stjórnarkreppum síðan.

Juventus hefur þrátt fyrir þetta tekist að snúa við blaðinu. Baksaga Calciopoli verður ekki rakin hér en það verður ekki tekið af félaginu að flest það sem hefur verið gert í uppbyggingunni eftir á hefur gengið vel. Juventus Stadium hefur gefið félaginu nýja táknmynd og leikmannakaup félagsins á undanförnum árum hafa skilað sér í fjórum meistaratitlum í röð. Innanborðs eru leikmenn sem eftirsóttir eru af flestum stórliðum Evrópu eins og til dæmis Pogba, Vidal, Bonucci, Pirlo og Morata. Stóri titillinn hefur hins vegar ekki látið á sér kræla, sjálfur meistaradeildarbikarinn.

Það hefur hins vegar alltaf legið fyrir síðustu fjögur ár að stefnan hefur verið sett þangað. Á hverju sumri hefur liðinu tekist að halda í stjörnurnar sínar þrátt fyrir gylliboð erlendis frá. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það er aðeins draumurinn um meistaradeildartitil sem heldur í þessa leikmenn, sem þegar hafa unnið allt sem hægt er að vinna innanlands. Því held ég að félagið sé á töluverðum tímamótum, og þar af leiðandi ítalska deildin í heild sinni. Deildin er nú þegar unnin og getur félagið því leyft sér að hvíla stórstjörnurnar fram að seinni leiknum við Real Madrid. Ef það skyldi ekki takast að vinna meistaradeildina núna er ég hræddur um að til dæmis Pogba og Vidal taki loks skrefið yfir í önnur félög í Evrópu og þá verður uppbygging að hefjast að nýju. Pirlo hefur einnig lýst því yfir, eftir að hafa unnið deildina síðustu fimm ár að meistaradeildartitill í ár verði sennilega hans svanasöngur. Brotthvarf hans frá Juventus verður jafnsorglegt fyrir félagið og það er sorglegt fyrir áhugamenn um skapandi, ítalska, síðhærða knattspyrnumenn.

Það er því mikið undir á Santiago Bernabeu næsta miðvikudag. Fjármagnið, athyglin og stoltið sem fylgir því að sigra meistaradeildina er gríðarlegt og myndi klárlega smitast út á önnur lið á Ítalíu, blása þeim von í brjóst um að ítölsk félög geti náð árangri á stærsta sviðinu í Evrópu. Og fátt er þó með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Skyldi Juventus ekki komast í úrslitaleikinn geta þeir líklegast fagnað í lok maí þegar Eurovision fer fram. Þar virðast Ítalir sigurstranglegir. Hver ætli haldi Eurovisionpartý í Juve-liðinu? Ég set peninginn minn á Pirlo. Eurovision-Pirlo.
Athugasemdir
banner
banner
banner