Bournemouth 1 - 0 Tottenham
1-0 Dean Huijsen ('17)
1-0 Dean Huijsen ('17)
Bournemouth tók á móti Tottenham í lokaleik 14. umferðar enska úrvalsdeildartímabilsins og úr varð spennandi slagur þar sem varnarmaðurinn ungi Dean Huijsen skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu.
Huijsen, sem er 19 ára gamall, skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu frá Marcus Tavernier og voru heimamenn í Bournemouth sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.
Bournemouth tókst þó ekki að tvöfalda forystuna og var staðan 1-0 í leikhlé, en gestirnir frá Tottenham virtust vera búnir að skipta um gír í upphafi síðari hálfleiks.
Tottenham hélt boltanum vel en náði þó ekki að skapa sér góð færi og þegar leið á seinni hálfleikinn tóku heimamenn öll völd á vellinum.
Evanilson kom boltanum í netið en markið ekki dæmt gilt vegna rangstöðu eftir athugun í VAR. Bournemouth komst tvisvar sinnum nálægt því að tvöfalda forystuna en boltinn rataði ekki í netið.
Lærisveinar Ange Postecoglou voru því á lífi allt þar til á síðustu sekúndu en þeim tókst ekki að skapa mikla hættu. Niðurstaðan verðskuldaður sigur Bournemouth sem hefði hæglega getað verið stærri.
Bournemouth hefur verið að ná merkilegum úrslitum á heimavelli á deildartímabilinu og er nú þegar búið að sigra leiki sína gegn Arsenal og Manchester City, auk Tottenham.
Bournemouth klifrar yfir Tottenham á stöðutöflunni með þessum sigri. Lærisveinar Andoni Iraola eru núna í níunda sæti með 21 stig eftir 14 umferðir, einu stigi meira en Tottenham.
Bournemouth heimsækir Ipswich á sunnudaginn áður en Tottenham tekur á móti Chelsea í spennandi Lundúnaslag.
Athugasemdir