fim 06. maí 2021 18:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Tristan mætir fyrrum liðsfélögum - „Gaman að hjálpa liðinu að komast upp"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum á laugardag
Úr leiknum á laugardag
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Einar Karl fékk beint rautt fyrir að stöðva Sólon
Einar Karl fékk beint rautt fyrir að stöðva Sólon
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það er mikil eftirsjá af frábærum þjálfara.
Það er mikil eftirsjá af frábærum þjálfara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tristan Freyr Ingólfsson lék sinn fyrsta leik í efstu deild á laugardag. Hann lék allan leikinn í liði Stjörnunnar þegar liðið gerði jafntefli gegn Leikni. Tristan er uppalin á Álftanesi en lék einnig með yngri flokkum fyrir austan og svo með Stjörnunni áður en hann steig skrefið upp í meistaraflokk.

Hann lék með KFG sumarið 2019 og seinni hluta tímabilsins í fyrra á láni hjá Keflavík. Keflavík er einmitt andstæðingur Stjörnunnar í 2. umferð á sunnudag.

Tristan lék í stöðu vinstri bakvarðar á laugardag en hefur einnig leyst aðrar stöður. Hver er hans uppáhaldsstaða?

„Ég er búinn að spila í vinstri bak síðasta árið og nýt mín mikið þar. Hef undanfarin ár spilað framar á vellinum og þá helst á köntunum og frammi," sagði Tristan.

Mjög þakklátur fyrir traustið
Leikurinn gegn Leikni, kom þér á óvart að þú varst í byrjunarliðinu þegar það var tilkynnt?

„Nei, það kom mér í rauninni ekkert á óvart. Ég er búinn að byrja alla leiki í vetur og það gengið vel, þannig ég var svolítið að búast við þessu. En auðvitað mjög gaman að fá traustið í fyrsta leik og er mjög þakklátur fyrir það."

Hvernig fannst þér leikurinn ganga hjá þér persónulega, sáttur með frammistöðuna? Varstu svekktur út í einhver atriði?

„Mér persónulega fannst ganga nokkuð vel. Mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum en við áttum klárlega að gera betur fyrir framan markið."

Óheppilegt en rétt hjá Einari Karli
Voruð þið, samherjar Einars Karls, ánægðir að hann fórnaði sér og tók á sig spjaldið eða hvernig horfið þið á þetta?

„Höfum ekkert farið yfir það atriði en mér fannst þetta rétt ákvörðun hjá honum, en þetta er auðvitað mjög óheppilegt."

Mjög góð reynsla og ánægður í Keflavík
Hvernig var veran hjá Keflavík í fyrra? Var þetta góð reynsla?

„Vera mín hjá Keflavík var mjög góð og ég var mjög ánægður þar. Strákarnir tóku vel á móti mér og þeir Eysteinn og Siggi eru frábærir þjálfarar og hjálpuðu mér mikið að komast inn í hlutina þar. Ég var kominn í liðið þar eftir nokkra leiki. Þetta var mjög góð reynsla og gaman að hjálpa liðinu að komast upp."

Leikurinn gegn Keflavík, er gaman að mæta strákunum sem þú lékst með í fyrra? Smá fiðringur fyrir leiknum?

„Auðvitað gaman að mæta sínum gömlu félögum, við spiluðum við þá í Lengjubikarnum og það var mjög skemmtilegt. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni á sunnudaginn."

Öll samkeppni er góð
Samkeppnin við Þórarin Inga og Oscar Borg, hvernig líst þér á hana komandi inn í mótið?

„Oscar hefur verið mikið meiddur hjá okkur en er aðeins farinn að hlaupa aftur þannig það verður gaman að sjá hann byrja að æfa aftur. Mér sýnist Tóti vera kominn í toppstand eftir erfið meiðsli en þeir tveir munu klárlega halda manni á tánum og passa að maður slaki ekkert á, en öll samkeppni er góð fyrir mann þannig maður verður að halda áfram."

Myndi ekki skemma fyrir að skora eða leggja upp
Hvert er þitt persónulega markmið í sumar?

„Mín persónulegu markmið í sumar eru að spila sem flesta leiki og hjálpa liðinu að vinna leiki og ná góðum árangri í sumar. Það myndi ekki skemma fyrir að ná að skora eitthvað og leggja upp mörk fyrir liðsfélagana."

Þakkar Rúnari Páli fyrir allt
Í gær sagði Rúnar Páll Sigmundsson óvænt upp starfi sínu sem þjálfari Stjörnunnar. Þorvaldur Örlygsson tekur við liðinu en hann hafði verið með Rúnari í teymi.

Kom þessi uppsögn ykkur leikmönnum á óvart?

„Þetta kom okkur öllum mjög á óvart og það er mikil eftirsjá af frábærum þjálfara. Ég óska honum góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur og þakka honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig."

Hvernig líst þér á að hafa Todda einan sem aðalþjálfara?

„Ég er ekki í neinum vafa um að Toddi muni standa sig frábærlega í þessu starfi enda hokinn af reynslu og við leikmenn ætlum að þjappa okkur saman, horfa fram á veginn og erum staðráðnir í að standa okkur í sumar," sagði Tristan.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner