"Ég get viðurkennt að við höfum þurft að hafa meira fyrir hlutunum. En við vissum það svosem fyrir leikinn að þetta yrði áskorun fyrir okkur að halda uppi tempói og gæðum," sagði markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir eftir 8-0 sigur gegn Makedóníu í undankeppni EM 2017 í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 8 - 0 Makedónía
Eins og úrslitin gefa til kynna var mikill getumunur á liðunum í kvöld.
"Standardinn hjá þeim er bara sorglegur, það verður að segjast alveg eins og er. Ég veit líka að það voru lykilmenn liðsins sem gáfu ekki kost á sér í leikinn svo þær urðu slakari fyrir vikið."
Harpa var ógnandi fyrir framan mark Makedóníu í dag en ekki eru allir á eitt sammála um hvort hún hafi skorað tvö eða þrjú mörk. UEFA segir að eitt markið hafi verið sjálfsmark hjá varnarmanni Makedóníu. Því er markadrottningin ekki sammála.
"Þetta voru alltaf þrjú mörk hjá mér. Það er klárt."
Þá segir Harpa að þó að EM sætið sé ekki endanlega gulltryggt sé engu að síður orðið tímabært að panta ferð á mótið. "Fólk getur alveg farið að bóka ferð til Hollands. Við munum komast á mótið."
Athugasemdir























