 
                                                                                        
                        
                                    
                                                    
                
                                                                
                „Mér fannst við góðar í fyrri hálfleik en lélegar í seinni hálfleik. Þær komu mjög sterkar inn í seinni hálfleikinn og keyrðu yfir okkur. Við skiptum um íþrótt og fórum í einhvern borðtennisleik,“ sagði Rut Kristjánsdóttir, leikmaður Víkings, eftir 2-0 sigur á Haukum.
                
                
                                    Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 Haukar
Víkingar komust í góða stöðu í fyrri hálfleik þar sem þær leiddu 2-0 en eins og Rut sagði þá voru Víkingar ekkert sérstaklega ánægðar með seinni hálfleikinn.
„Það er ekkert oft í sumar sem við höfum farið inn í hálfleik og verið yfir. Það var smá stress og svo þetta klassíska, að þriðja markið er mikilvægasta markið. En það kom ekkert þriðja í dag.“
„Við vissum að við værum að fara að mæta mjög sterku Haukaliði en vorum búnar að finna út úr því hvernig væri hægt að loka á þær. Ég held að það hafi tekist þokkalega vel. Við náðum allavegana að halda hreinu í dag. Að vera þéttar og breika á þær var uppleggið,“ sagði Rut um leikskipulagið en hún skoraði annað mark Víkings og var það í fallegri kantinum.
„Ég ætla bara að hafa þetta fallegt í sumar,“ grínaðist Rut en þetta var hennar þriðja mark í sumar og að minnsta kosti tvö þeirra hafa komið eftir falleg þrumuskot.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
        




















 
         
     
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                    
        
         
                 
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
        