Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 08. febrúar 2023 17:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir að Heimir taki ákvörðunina ef Greenwood er tilbúinn
Greenwood á ættir að rekja til Jamaíku
Mason Greenwood.
Mason Greenwood.
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíku.
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðustu viku voru alvarlegar ákærur á hendur fótboltamanninum Mason Greenwood felldar niður.

Greenwood var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, ofbeldisfulla hegðun og líkamsárás gegn kærustu sinni.

Englendingurinn var handtekinn eftir að kærasta hans birti myndir af áverkum sínum og hljópupptöku þar sem hann neyðir hana til kynmaka.

Greenwood hefur ekki spilað með United síðan en félagið á eftir að taka ákvörðun um framtíð hans. Hann er enn samningsbundinn Man Utd.

Það eru margar dyr að lokast á hann eftir þetta mál og spurning hvort dyrnar muni lokast hjá United, en fótboltasambandið í Jamaíku virðist tilbúið að taka á móti honum. Í samtali við Jamaica Observer segir Dennis Chung, framkvæmdastjóri fótboltasambandsins í Jamaíku, að það sé ekki útilokað að Greenwood komi í landslið Jamaíku.

Greenwood á ættir að rekja til Jamaíku og getur spilað fyrir landslið þeirra þrátt fyrir að eiga einn landsleik að baki fyrir England. Sá landsleikur var gegn Íslandi í Laugardalsvelli.

Þjálfari Jamaíku er Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, en hann tók við liðinu á síðasta ári. Chung segir að það sé undir Heimi komið að velja Greenwood ef leikmaðurinn er tilbúinn að spila fyrir landslið Jamaíku, það sé þjálfarinn sem ráði.

„Þetta er ákvörðun sem þjálfarinn verður að taka. Ef þjálfarinn er tilbúinn að velja hann þá tökum við vel á móti honum," segir Chung um Greenwood.

„Hann er stórkostlegur leikmaður en það er þjálfarinn sem ræður. Ég held að hann muni bæta hvaða lið sem er."

Chung segir að Greenwood sé saklaus þar sem kærurnar voru felldar niður, en það er nú ekki alveg rétt þar sem myndirnar og hljóðupptökurnar eru enn til staðar og málið fór ekki fyrir rétt þar sem nýjar - óútskýrðar - vendingar komu fram í málinu.

Fótboltasambandið í Jamaíku hefur áður lýst yfir áhuga á því að fá Greenwood í sitt lið og spurning hvað gerist. Greenwood hefur sjálfur ekki gefið það út að hann ætli að halda áfram í fótbolta.
Athugasemdir
banner