Leikurinn við Kýpur verður síðasti heimaleikur Íslands í undankeppni HM 2014 en uppselt er á leikinn sem fram fer á föstudaginn. Ísland er í öðru sæti riðilsins sem stendur en baráttan er gríðarlega hörð.
„Við ætlum að spila sóknarbolta og reyna að skora snemma. En þeir bakka og eru fastir fyrir, það er ekki auðvelt að brjóta þá niður. Ef við skorum ekki snemma verðum við að vera þolinmóðir og ekki missa einbeitinguna varnarlega," sagði varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson fyrir æfingu í dag.
Íslenska liðið er ekki að fara að vanmeta Kýpur enda tapaðist leikurinn ytra.
„Við erum ennþá pirraðir. Þetta var bara kjaftæði, þeir eiga ekki að vinna okkur. Við eigum að vinna þá og ætlum að sýna það á föstudaginn."
Ragnar hefur verið í eldlínunni með FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu og lék gegn Real Madrid á dögunum.
„Maður þarf að finna „motivation" þegar maður er búinn að vera að spila gegn Ronaldo og Benzema og þessum gaurum. En þetta er bara fótboltaleikur sem maður ætlar að vinna," sagði Ragnar um leikinn á föstudag.
Viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























