Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 10. mars 2023 19:39
Brynjar Ingi Erluson
Víkingur fær 50 þúsund króna sekt en úrslitin standa óhögguð
Jochum Magnússon kemur inná í leiknum gegn Stjörnunni
Jochum Magnússon kemur inná í leiknum gegn Stjörnunni
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur sektað Víking R. um 50 þúsund krónur fyrir að hafa ranglega fyllt leikskýrslu í 2-1 sigri liðsins á Stjörnunni þann 16. febrúar síðastliðinn en ekki var hægt að sanna að það var gert með vísvitandi hætti og verða því úrslitin óhögguð.

Stjarnan kærði leikinn til KSÍ eftir að Jochum Magnússon kom inná sem varamaður fyrir Ingvar Jónsson á 61. mínútu

Jochum var ekki á leikskýrslu Víkings heldur var Uggi Jóhann Auðunsson á skýrslunni.

Stjarnan kærði því og sagði Víking hafa ranglega fyllt út skýrsluna með vísvitandi hætti. Ekki var þó hægt að sanna það en Víkingur gekkst þó við brotinu og fær því 50 þúsund króna sekt en heldur sigrinum.

„Við sönnunarmat nefndarinnar er í fyrsta lagi horft til þess að frásagnir í greinargerðum kæranda og kærða fari ekki saman er varðar meint vísvitandi brot. Í öðru lagi horfir nefndin til þess að ekki liggi fyrir nein gögn til stuðnings fullyrðingu í greinargerð kæranda að leikskýrsla hafi verið ranglega fyllt út með vísvitandi hætti af hálfu kærða. Þá getur nefndin ekki tekið undir sjónarmið kæranda um að í greinargerð kærða felist viðurkenning á að brot hafi verið framið með vísvitandi hætti. Það er mat nefndarinnar að í greinargerð kærða sé aðeins gengist við því að leikskýrsla hafi fyrir mistök verið ranglega fyllt út,“ segir í úrskurðinum.

Víkingur er því áfram með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í riðli 3 í A-deildinni en Stjarnan með 8 stig í öðru sæti. Víkingur er komið í undanúrslit Lengjubikarsins.

Hægt er að lesa úrskurðinn í heild sinni hér
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner