Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   mið 10. maí 2023 13:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ágúst látinn fara frá Stjörnunni (Staðfest) - Jökull tekur við
Ágúst Gylfason tók við Stjörnunni fyrir síðasta tímabil.
Ágúst Gylfason tók við Stjörnunni fyrir síðasta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull Elísabetarson.
Jökull Elísabetarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst Gylfason hefur verið látinn fara frá Stjörnunni og mun ekki stýra liðinu áfram. Jökull Elísabetarson tekur við liðinu af honum. Ágúst tók við Stjörnunni fyrir síðasta tímabil og var Jökull þá ráðinn aðstoðarþjálfari hans.

Stjarnan hefur byrjað þetta tímabil illa og er liðið í ellefta sæti Bestu deildarinnar með þrjú stig.

„Það er aldrei auðveld ákvörðun að láta menn fara og sannarlega ekki í tilviki Gústa sem tók að sér að taka þátt í þeirri vegferð sem félagið hefur verið á þar sem miklar breytingar á leikmannahópnum hafa átt sér stað og uppbygging þar sem við höfum spilað á mörgum ungum leikmönnum. Sú staða sem er komin upp í byrjun móts þar sem liðið er í bullandi fallbaráttu er hins vegar ekki ásættanleg og því ákveðum við að stíga þetta skref núna. Ég vil þakka Gústa persónulega fyrir hans framlag og gott og heiðarlegt samstarf sem við höfum átt frá fyrsta degi og óska honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur," segir Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar.

Gústi þakkar fyrir sinn tíma hjá félaginu.

„Mig langar að þakka Silfurskeiðinni og öllu Stjörnufólki fyrir minn tíma hjá félaginu og lít stoltur yfir farinn veg. Ég hef ekki fundið annað en stuðning allan þann tíma sem ég hef starfað hjá félaginu og er sannfærður um að liðið mun snúa við taflinu og stíga þau skref sem ég er viss um að leikmannahópurinn getur gert. Ennfremur vil ég þakka þjálfarateyminu og þeim sem standa í kringum liðið, en umgjörðin er í kringum liðið er algerlega einstök," segir Ágúst.

Jökull tekur við liðinu
Jökull Elísabetarson, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Gústa, tekur við stjórn liðsins.

„Sú staða sem við erum í kallar á breytingar en þar sem félagið hefur haft óbilandi trú á þeirri vegferð sem liðið er á fannst okkur eðlilegt næsta skref að Jökull myndi taka við starfinu af Gústa enda alltaf erfiðar aðstæður sem skapast við brottför þjálfara og með þessu teljum við að við tryggjum ákveðna samfellu í því sem við höfum verið að gera. Við treystum Jökli vel til þess að snúa gengi liðsins við og munum hvetja Stjörnufólk til þess að halda áfram sínum frábæra stuðningi við liðið sem er í bullandi fallbaráttu eins og sakir standa og verkefni hans, leikmanna og annarra sem standa að liðinu er að snúa genginu við," segir í tilkynningu Stjörnunnar.

Sjá einnig:
„Allir tala um að Jökull sé heilinn á bak við þetta en öll pressan er á Gústa“
Athugasemdir
banner
banner