Þorri Ingólfsson, fæddur 2009, er búinn að skrifa undir sinn fyrsta samning við stórlið Víkings R. sem gildir næstu tvö keppnistímabil.
Þorri á þrjá landsleiki að baki með U15 liði Íslands og er lykilmaður með yngri flokkum Víkings þrátt fyrir að spila með næsta aldursflokki fyrir ofan sinn eigin.
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, lýsir Þorra sem lágvöxnum og teknískum leikmanni sem á auðvelt með að fara framhjá andstæðingum sínum og þá sérstaklega á þröngum svæðum. Hann er fjölhæfur leikmaður og getur meðal annars spilað sem bakvörður og kantmaður.
Birgitta Rún Yngvadóttir, fædd 2007, hefur þá einnig skrifað undir sinn fyrsta samning við Víking sem gildir næstu tvö árin.
Birgitta Rún er uppalin hjá Víkingi og spilaði sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk í haust.
John Andrews, þjálfari meistaraflokks kvenna, hefur mikla trú á Birgittu.
„Birgitta er leikmaður sem við bindum miklar vonir við. Hún var að glíma við meiðsli á síðasta tímabili en er að komast aftur í sitt besta form og ætlar að brjóta sér leið inn í meistaraflokkshópinn fyrir næstu leiktíð. Birgitta er mikill íþróttamaður og í bland við hæfileika hennar hefur hún allt sem þarf til að verða mikilvægur leikmaður fyrir okkur Víkinga. Fylgist með nafninu hennar á næsta tímabili," sagði Andrews.
Athugasemdir