Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   fim 11. apríl 2024 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pau Torres: Erum samkeppnishæfir í Evrópu og á Englandi
Mynd: Aston Villa
Spænski miðvörðurinn Pau Torres hefur mikla trú á Aston Villa á lokaspretti tímabilsins, en liðið hefur reynst spútnik lið ársins í ensku úrvalsdeildinni og er komið í 8-liða úrslit Sambandsdeildarinnar.

Villa tekur þar á móti Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í franska félaginu Lille, þar sem fyrri leikurinn verður flautaður á í kvöld klukkan 19:00 á Villa Park.

Aston Villa er auk þess í harðri baráttu við Tottenham um fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þó að talsverðar líkur séu á því að fimmta sætið muni einnig veita þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Þar er Villa í fimmta sæti, jafnt Tottenham á stigum en Lundúnafélagið er með betri markatölu og leik til góða.

„Við erum með virkilega sterkan leikmannahóp og við getum verið samkeppnishæfir bæði í Evrópu og í úrvalsdeildinni. Við erum með nóg af hæfileikaríkum leikmönnum til að spila vel í báðum keppnum, núna þurfum við að leggja mikið á okkur á lokasprettinum," sagði Torres á fréttamannafundi í gær.

„Við erum allir mjög einbeittir að því að standa okkur sem best í báðum keppnum."

Torres var í liði Sevilla sem vann Evrópudeildina undir stjórn Unai Emery 2021 og er mjög ánægður með að spila fyrir sinn gamla þjálfara. Aston Villa hefur þó ekki unnið titil síðan 1996, þegar liðið vann enska deildabikarinn.

Villa spilar við Lille í kvöld og heimsækir svo Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.
Athugasemdir
banner
banner