„ÍR, hérna heima væri flott," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, þegar hann var spurður út í drauma andstæðing í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins en Skagamenn unnu góðan 1-0 sigur á FH á Norðuráls-vellinum í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 0 FH
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði eina mark leiksins á 6. mínútu eftir að Sindri Snær Magnússon vann boltann og sendi Ísak í gegn.
Heimamenn fengu fín færi í leiknum og gátu komist í 2-0 en undir lokin var Árni Marinó Einarsson í essinu sínu og varði tvö stór færi frá FH-ingum.
Jóhannes Karl var himinlifandi með frammistöðuna í kvöld.
„Algjörlega. Strákarnir lögðu ansi mikið á sig og voru klárir í alvöru baráttu. FH stillti upp þungavigtarliði með öflugu miðju en ég var rosalega ánægður með andann í liðinu og viljann til að berjast og kljást við þá," sagði hann við Fótbolta.net.
„Við sköpuðum okkur ágætis færi og komumst í ágætis stöðu til að skora fleira en eitt mark. Af því við börðumst vel og lögðum þetta mikið á okkur og það dugði í dag, það skipti öllu máli og við erum komnir áfram í bikarnum."
„Það er þessi gamla góða klisja að mörk breyta leikjum. Það var frábært að koma í forystuna snemma og við hefðum jafnvel getað komist í 2-0 en þetta var frábærlega gert. Ísak er grimmur og gerir vel að koma sér í þessa stöðu og Sindri gerir vel að vinna boltann."
„Ég var ánægður með hversu öflugir okkar leikmenn voru gegn FH-ingum sem eru virkilega vel mannaðir."
Leikmenn liðsins eru samanþjappaðir og hafa sýnt mikinn baráttuvilja á vellinum og er það að skila sér.
„Við erum farnir að vera duglegri og betri í hvetja hvorn annan til dáða á vellinum. Hvort sem það er með eða án bolta og trúin hjá mönnum var virkilega flott í dag."
Jónatan Ingi Jónsson var rekinn af velli þegar um það bil hálftími var eftir af leiknum. Jóhannes segir að dómurinn hafi verið réttur.
„Mér fannst hann kýla eða gefa olnbogaskot í átt að mínum leikmanni. Mér sýndist hann slá hann og ég held að dómarinn og aðstoðardómarinn hafi séð það og þetta er beint rautt spjald," sagði hann ennfremur. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir






















