Franskir fjölmiðlar greina frá því að Paris Saint-Germain sé að beina spjótum sínum að Marcus Rashford, framherja Manchester United.
L'Equipe greinir frá þessu og hafa fleiri miðlar tekið undir. Sky Sports á Englandi hefur sent fyrirspurn á heimildarmenn sína hjá Man Utd og bíður svara.
Rashford verður 25 ára í október og hefur markaskorun hans dalað að undanförnu. PSG hefur haft áhuga á framherjanum í nokkur ár og nú á hann aðeins tvö ár eftir af samningi sínum við Rauðu djöflana, eða eitt ár og eitt auka ár sem félagið getur virkjað.
Rashford skoraði aðeins fimm mörk í 32 leikjum á síðustu leiktíð eftir að hafa skorað 43 mörk yfir tvö tímabil þar á undan.
Hann á 12 mörk í 46 landsleikjum fyrir England og hefur í heildina skorað 93 mörk í 304 leikjum hjá Man Utd.