Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 13. maí 2021 23:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Af hverju haga leikmennirnir sér svona? Þetta er ekki eðlilegt"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA hefur fengið tvö rauð spjöld í fyrstu þremur umferðum Pepsi Max-deildarinnar.

Ísak Snær Þorvaldsson fékk tvö gul í fyrstu umferð gegn Val og í kvöld fékk Hákon Ingi Jónsson tvö gul spjöld. Það er óhætt að segja að þetta séu rauð spjöld sem hefði verið hægt að forðast, alveg klárlega. Tvö rauð spjöld sem komu á mjög slæmum tíma líka, þá sérstaklega í kvöld þegar Skagamenn voru 1-0 yfir.

Ólafur Jóhannesson, einn sigursælasti þjálfari Íslandssögunnar, skaut aðeins á Skagamenn í Stúkunni á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Þetta er annar leikurinn þar sem þeir fá rautt spjald og bæði svona vitleysa. Það er hægt að segja að öll rauð spjöld séu vitleysa en stundum eru þau það ekki. Hvar er spennustig leikmanna?" spurði Ólafur.

„Af hverju haga leikmennirnir sér svona? Þetta er ekki eðlilegt. Eins og þessi tvö spjöld, þetta er ekkert eðlilegt. Þú getur farið einu sinni í markvörðinn, þrumað í hann og svona, og þá hefurðu smá yfirburði yfir markverðinum næst þegar þú mætir honum en þetta er út í hött," sagði Ólafur jafnframt.

„Spennustigið hjá liðinu er ekki rétt."
Athugasemdir
banner