Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fös 13. maí 2022 14:04
Elvar Geir Magnússon
Sex mánaða bann Kristjáns fellt úr gildi
Guðjón Þórðarson þjálfari Ólafvíkurliðsins og liðsstjórinn Kristján Björn Ríkharðsson.
Guðjón Þórðarson þjálfari Ólafvíkurliðsins og liðsstjórinn Kristján Björn Ríkharðsson.
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur Ólafsvík áfrýjaði sex mánaða banni sem liðsstjóri félagsins, Kristján Björn Ríkharðsson, var dæmdur í af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ. Áfrýjunin gekk upp hjá félaginu því bannið hefur verið afturkallað.

Víkingur Ó. lék ólöglegum leikmanni á fölskum forsendum í leik gegn ÍR í Lengjubikarnum. Liðið vann 2-1 sigur í umræddum leik en var dæmt 3-0 tap og félagið fékk sekt.

„Það sem við eigum hinsvegar ákaflega erfitt með að sætta okkur við er að Kristján Ríkharðsson taki skellinn af brotinu. Fyrir það fyrsta er Kristján hvorki stjórnarmaður né starfsmaður hjá félaginu og getur því seint talist ábyrgur fyrir ákvörðunum sem teknar eru á meðal stjórnenda félagsins. Þá var hann ekki meðvitaður um að skýrslan væri ekki sett fram á réttan hátt," sagði í yfirlýsingu félagsins eftir dóminn.

Kristján er 67 ára og ræddi við Vísi eftir að hafa verið dæmdur í bannið.

„Ég er alltaf í kringum liðið, bæði á útivöllum og á heimavelli. Minna þó á útivöllum þar sem að ég er orðinn sjúklingur og fer takmarkað í ferðalögin. Ég var bara að græja inni í klefa þegar komið var með leikskýrsluna til mín og ég beðinn um að skrifa undir. Það hef ég oft gert og ég er ekkert að lesa þessa andskotans skýrslu. Ég nenni því ekkert enda þekki ég flesta þessa stráka," sagði Kristján við Vísi.

Áfrýjunardómstóll KSÍ felldi leikbann Kristjáns úr gildi. „Verður ekki ráðið af gögnum málsins að Kristján hafi verið í hlutverki þjálfara hjá hlutaðeigandi félagi né í forystuhlutverki, þrátt fyrir að hafa undirritað leikskýrslu sem forráðamaður hjá liði Víkings Ólafsvíkur," segir í niðurstöðu áfrýjunardómstólsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner