ÍA er eitt af þeim liðum sem hefur ollið hvað mestum vonbrigðum í Bestu deildinni í sumar. Skagamenn hafa núna tvisvar á stuttum tíma fengið rassskellingu á móti KR og Val.
ÍA er með sex stig eftir sex leiki og situr í tíunda sæti deildarinnar, en fyrir mót var þeim spáð í efri helminginn.
ÍA er með sex stig eftir sex leiki og situr í tíunda sæti deildarinnar, en fyrir mót var þeim spáð í efri helminginn.
Eftir 6-1 tap gegn Val á dögunum, þá tók Jón Þór Hauksson, þjálfari liðsins, menn á teppið í viðtali eftir leik.
„Ég held að menn þurfi bara að fara heim til sín og horfa aðeins í spegil; hver djöfullinn er í gangi og hvernig menn ætla að hafa þetta helvítis sumar," sagði Jón Þór pirraður.
Rætt var um Skagaliðið í Innkastinu núna á dögunum. „Jón Þór var ekkert ljóðrænn eftir leikinn. Hann talaði bara hreint út," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.
„Hann talaði tæpitungulaust en mér fannst hann samt ekki hafa nein svör," sagði Baldvin Már Borgarsson. „Hann viðurkenndi það bara. Hann var virkilega ósáttur við þetta og að þeir væru að skíttapa á sama hátt og í lokaleiknum í fyrra. Fyrir nokkrum mánuðum síðan mættu þeir þarna og beygðu sig fram fyrir Valsmönnum. Það er hræðilegt fyrir Skagamenn að bjóða upp á þessa frammistöðu eftir geggjaðan iðnaðarsigur á móti KA, að ná ekki að fylgja því eftir. Þeir unnu fyrsta leikinn og hafa í raun verið daprir eftir það."
„Maður fagnar því að þjálfari sé heiðarlegur með þetta og viðurkenni það að þeir hafi verið ömurlegir, sem þeir voru vissulega. Jón Þór þarf ekki að vera með svör beint eftir leik en það er undir honum komið að vera snöggur að finna svör fyrir næsta leik," sagði Almarr Ormarsson.
Upp og niður síðustu árin
Í neðstu þremur sætunum þessa stundina eru KA, ÍA og FH.
„Akkúrat núna eru það KA, ÍA og FH sem líta verst út. Þau hafa átt lélegustu leikina. Þetta eru hins vegar allt lið sem eru með mannskap til að snúa þessu við. Þau verða að vera snögg að finna lausnir til að vera ekki í bullandi fallbaráttu. Þau geta verið alveg rosalega léleg þessi lið," sagði Almarr.
„Vonda frammistaðan er svo ofboðslega léleg (hjá ÍA og KA). Alveg óboðlega léleg," sagði Baldvin.
„Í fyrra var enginn að spá Skagamönnum neitt og þeir koma upp sem nýliðar alveg pressulausir. Þeir eru flottir í fyrra. Núna í ár keppast allir við að spá þeim í efri hlutanum og þeir verði frábærir. Það virðist ekki henta þessu liði sérstaklega. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem maður sér þetta 'second season syndrome' hjá Skagamönnum. Miðað við upphafi á þessu móti vilja þeir vera litla liðið," sagði Almarr.
„Skaginn er í dag bara eins og Fylkir. Þeir hafa varla átt meira en þrjú tímabil í röð í efstu deild síðan 2008," sagði Baldvin. „Tvö til þrjú tímabil og þeir fara alltaf niður. Menn þurfa að spýta í lófana."
ÍA kom upp fyrir tímabilið í fyrra og endaði í fimmta sæti, en staðan er ekki frábær í upphafi þessa sumars. Hér fyrir neðan má sjá samantekt af því hvernig ÍA hefur gengið í efstu deild frá 2008 en það hefur ekki verið jákvæður stöðugleiki í þessum árangri.
Árangur ÍA í efstu deild frá 2008:
2008 - 12. sæti með 13 stig
2012 - 6. sæti með 32 stig
2013 - 12. sæti með 11 stig
2015 - 7. sæti með 29 stig
2016 - 8. sæti með 31 stig
2017 - 12. sæti með 17 stig
2019 - 10. sæti með 27 stig
2020 - 8. sæti með 21 stig
2021 - 9. sæti með 21 stig
2022 - 11. sæti með 25 stig
2024 - 5. sæti með 37 stig
Athugasemdir