þri 14. september 2021 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hrósar Loga Hrafni og segir mikið spunnið í Baldur Loga
Logi Hrafn
Logi Hrafn
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Baldur Logi
Baldur Logi
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Guðmundur Kristjánsson
Guðmundur Kristjánsson
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Logi Hrafn Róbertsson hefur spilað vel með FH eftir að hann kom inn í liðið um miðbik mótsins. Logi er sautján ára miðjumaður sem spilaði sinn fyrsta leik í meistaraflokki sumarið 2019. Logi kom inn í lið FH fyrir leikinn gegn Leikni þann 15. ágúst og hefur spilað allar mínútur liðsins í síðustu fimm leikjum þess.

Þá hefur Baldur Logi Guðlaugsson fengið stærra hlutverk þegar liðið hefur á mótið og átt góða leiki. Hann var að mati fréttaritara næstbesti maður FH í leiknum gegn Stjörnunni í gær.

Lestu um leikinn: Stjarnan 0 -  4 FH

Guðmundur Kristjánsson, leikmaður FH, var til viðtals eftir leikinn í gær og hrósaði Loga Hrafni. Logi átti stóran þátt í öðru marki FH í leiknum þegar Haraldur Björnsson varði skot hans og Matthías Vilhjálmsson fylgdi á eftir og skoraði.

Logi Hrafn smollið vel inn - Baldur að sýna stöðugleika
Þið eruð búnir að spila vel að undanförnu, hvað hefur breyst? Er það staðreyndin að það er engin pressa á liðinu?

„Nei, nei, ég segi það nú ekki. Hlutirnir sem við höfum lagt upp með hafa farið að ganga betur upp hjá okkur, spilið flotið betur og við erum þéttari. Skipulagið varnarlega hefur haldið betur, höfum haldið hreinu og skorað mikið," sagði Guðmundur.

„Logi Hrafn hefur verið að smella rosalega vel inn í þetta, mér finnst hann binda liðið vel saman. Ég vil hrósa honum líka, hann á stóran þátt í þessu líka. Hann passar vel inn í þetta."

„Við spiluðum mjög vel á móti Víkingum, töpuðum því miður en það er góður stígandi í þessu en því miður svolítið seint í rassinn gripið. Vonandi að við náum að byggja aðeins ofan á þetta og halda þessu áfram í næstu leikjum."


Hvernig finnst þér Baldur Logi hafa komið inn í liðið?

„Baldur hefur, alveg frá því hann byrjaði að spila með okkur, staðið sig mjög vel. Eins og hjá mörgum ungum leikmönnum þá vantar stöðugleika, á mjög góða leiki og svo sum augnablik þar sem hægt er að gera betur. Það sem hefur verið að gerast núna er að hann hefur verið að finna þennan stöðugleika. Það er mikið í hann spunnið og við vitum það allir sem spilum með honum. Ég er virkilega sáttur með hann, þetta er til að byggja ofan á."

„Það eru margir ungir leikmenn hjá okkur að stíga upp núna sem er virkilega gott að sjá. Við þurfum á því að halda í framtíðinni, við erum margir gamlir þannig að það er fínt að ungu leikmennirnir eru að fá tækifærið,"
sagði Guðmundur.

Engin eftirsjá hjá Ólafi
Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, var spurður út í þá Loga Hrafn og Baldur Loga í viðtali eftir leikinn.

Sjáiði eftir því að hafa ekki byrjað fyrr á því að nota þá í liðinu? „Nei, við sjáum ekki eftir því."

Af hverju ekki? „Af hverju?

Af því þeir eru búnir að vera það góðir? „Já, það er frábært að þeir séu góðir og við erum ánægðir með það," sagði Óli.

Sjá einnig:
Af hverju ekki fyrr?
Óli Jó búinn að ákveða framhaldið
„Eðlilega verður maður reiður ef hann sólatæklar mig aftan í kálfann"
Athugasemdir
banner
banner