Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 14. september 2022 12:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gengur ekki upp að vera með þjálfara búsettan í Eyjum - „Þetta ár olía á eldinn hjá mér"
Lengjudeildin
Þetta ár á Ísafirði er í raun bara olía á eldinn hjá mér
Þetta ár á Ísafirði er í raun bara olía á eldinn hjá mér
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það gekk ekki alveg en mér finnst við samt hafa náð mjög góðum árangri
Það gekk ekki alveg en mér finnst við samt hafa náð mjög góðum árangri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég er orðinn mun meiri og betri leiðtogi
Ég er orðinn mun meiri og betri leiðtogi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Samúelsson
Samúel Samúelsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vorum búnir að taka nokkra fundi, við Sammi. Vorum að kasta hlutum á milli og reyna að finna út úr því hvernig við myndum láta þetta ganga á næsta ári en því miður þá bara gekk það ekki upp. Við erum ekki að skilja í neinum leiðindum og gerðum þetta allt í mesta bróðerni," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson við Fótbolta.net í dag.

Í morgun var tilkynnt að Gunnar yrði ekki áfram hjá Vestra en hann var ráðinn þjálfari liðsins fyrir tímabilið eftir að hafa náð eftirtektarverðum árangri með lið KFS í Vestmannaeyjum. Gunnar er búsettur í Vestmannaeyjum og er þar í starfi hjá Vinnslustöðinni.

„Jón Hálfdán (Pétursson), aðstoðarþjálfari, var búinn að ákveða að hætta í teyminu. Hann hefur búið hér og verið hérna yfir veturinn. Ég get ekki alveg flutt hingað (á Ísafjörð) fyrr á vorinu af ýmsum ástæðum og þess vegna bara endaði þetta svona."

Gengur ekki að vera með þjálfara í Vestmannaeyjum á fullum launum
Sammi, Samúel Samúelsson hjá Vestra, tjáði sig um ákvörðun Vestra í viðtali við 433.is.

„Það gengur ekki upp hjá okkur að vera með þjálfara úti í Vestmannaeyjum næstu sjö mánuðina á fullum launum hjá félaginu. Við værum ekki að fá mikið vinnuframlag á þeim tíma. Stefna okkar núna er að fá þjálfara sem getur helst verið hérna fyrir vestan.“

„Annar hvor þeirra verður að vera búsettur hér. Jón Hálfdán hefur verið hérna, heimamaður og við höfum ekki þurft að redda honum húsnæði eða einhverju öðru í þeim dúr. Nú er staðan önnur,"
sagði Sammi.

Finnst árangurinn gríðarlega góður miðað við aðstæður
Gunnar var ráðinn þjálfari um mánuði eftir að Jón Þór Hauksson, þá þjálfari Vestra, var ráðinn til ÍA.

„Ég tek við á erfiðum tímapunkti þegar það eru um 4 vikur í fyrsta leik í bikar. Fyrsta æfingin er úti á spáni þegar það eru 3 vikur í fyrsta leikinn. Mér finnst við hafa náð gríðarlega góðum árangri í sumar miðað við aðstæður. Ég tek við hópi sem Sammi og Jón Þór voru búnir að setja saman og það var planið að reyna að hamra járnið og fylgja eftir góðum endaspretti í fyrra. Það gekk ekki alveg en mér finnst við samt hafa náð mjög góðum árangri."

Vestri situr í 8. sæti Lengjudeildarinnar og getur hæst endað í 5. sætinu með sigri á HK í lokaumferð deildarinnar.

„Bæði okkur og öðrum þjálfurum finnst við hafa verið betri aðilinn í mörgum af þessum leikjum og við höfum skapað fullt af færum til að skora. Svo höfum við gert klaufamistök í vörninni á sama tíma og okkur hefur gengið illa að klára færin."

Orðinn mun meiri og betri leiðtogi
„Ég sem þjálfari vill mikið vera með boltann og spila góðan sóknarbolta. Ég legg mikið upp úr því að maðurinn með boltann sé alltaf með fjóra möguleika og viti sitt hlutverk. Ég hef skýra sýn á það hvernig ég vil spila fótbolta og mér finnst það hafa gengið vel að koma því inn í leikmannahópinn. Bæði hér og hjá KFS."

„Mesta áskorunin fyrir mig hérna hefur verið að stýra svona fjölbreyttum hópi af leikmönnum. Það eru mismunandi menningarheimar að mætast og ég hef fengið gríðarlega dýrmæta reynslu hérna. Hérna er til dæmis töluð enska allan daginn en það er eitthvað sem ég þekki eftir 12 ár í atvinnumennsku sjálfur og er vanur því að setja mig í spor annarra. Ég er orðinn mun meiri og betri leiðtogi."


Tímabilið olía á eldinn - Langar að fara alla leið í þessu
Hvað tekur við?

„Ég er bara til í að hlusta á hvaða tækifæri sem er. Þetta ár á Ísafirði er í raun bara olía á eldinn hjá mér. Ég hef skýra sýn og mig langar til þess að fara alla leið í þessu. Það skiptir mig ekkert endilega öllu máli hvaða starfstitil ég fæ en bara það að verkefnið og hlutverkið sé spennandi. Ég myndi alltaf taka fundinn ef einhver hefur áhuga á að nýta mína krafta og er bara mjög spenntur fyrir framtíðinni í þessu."

„Það er bara lokaleikurinn um helgina og við ætlum að vinna hann. Svo er lokahóf um kvöldið og þar verður skálað í glösum. Svo verður bara gaman að skoða hvort það komi eitthvað tækifæri á borðið í kjölfarið af því,"
sagði Gunnar Heiðar.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner