Nóg af Amorim tengdu slúðri - Arsenal horfir til Bayern - Chelsea horfir til Lecce - Gerrard ætlar að berjast
banner
   mán 14. október 2024 23:05
Brynjar Ingi Erluson
Fannst Logi ekki hafa neglt sæti sitt í liðinu - „Myndi ekki segja að hann ætti stöðuna“
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingurinn Logi Tómasson fékk verðskuldað tækifæri í vinstri bakverðinum í 4-2 tapinu gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld eftir magnaða frammistöðu gegn Wales, en Lárus Orri Sigurðsson segir stöðuna enn á lausu.

Lestu um leikinn: Ísland 2 -  4 Tyrkland

Logi kom inn af bekknum gegn Wales í fyrri leiknum í þessu verkefni og sá til þess að bjarga stigi.

Hann skoraði fallegt mark með utanfótarskoti og átti í raun seinna markið eftir að hafa dansað eftir endalínunni og sparkaði boltanum í Danny Ward sem stýrði honum í netið.

Það var því eðlilegt að hann hafi fengið tækifærið í byrjunarliðinu í dag. Kjartan Atli Kjartansson spurði Lárus Orra hvort hann sæi framfarir í spilamennsku liðsins og sagði hann svo vera, en þó helst sóknarlega og ræddi þá frammistöðu Loga.

„Sóknarlega já, en maður var svolítið að fylgjast með Loga og sjá hvort hann myndi standa sig, grípa tækifærið og negla þessa vinstri bakvarðarstöðu. Mér fannst hann ekki gera það. Mér fannst hann þreyttur í seinni hálfleik, hikandi í nokkrum tæklingum í seinni hálfleik og spurningar með hann. Ég myndi ekki segja að hann ætti stöðuna í næsta leik en hver ætti að koma inn í staðinn? Ég veit það ekki,“ sagði Lárus á Stöð 2 Sport.

Hann setti þá spurningarmerki við miðverði Íslands í verkefninu.

„Voru hafsentarnir mjög góðir í þessum glugga? Það voru spurningarmerki í mörkunum sem Wales skoraði. Þetta er vandamál í vörninni.“

Kári Árnason var ekki sammála Lárusi varðandi frammistöðuna og sagði Loga hafa átt flottan leik, en að vissulega hafi bakvörðurinn verið heldur þreytulegur í restina.

„Mér fannst Logi mjög flottur í fyrri hálfleik en sammála að hann var orðinn þreyttur undir lokin en þá hefði hann átt að fá skiptingu. Mér fannst hann gera nóg til að verðskulda að vera þarna í næstu leikjum en vissulega þreyttur síðustu 15-20,“ sagði Kári um Loga.
Athugasemdir
banner
banner
banner