Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   lau 15. maí 2021 00:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Svekktur en ágætt samt að enda þetta svona"
Markinu fagnað
Markinu fagnað
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir markið
Eftir markið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
No look?
No look?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttunni
Í baráttunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég segi fínt, dagarnir eru aðeins auðveldari eftir sigurleiki,“ sagði Almarr Ormarsson, hetja Valsara, við Fótbolta.net í dag. Almarr skoraði sigurmark Vals undir lok leiks gegn HK í gær. Markið má sjá hér neðst í fréttinni.

„Kom virkilega sterkur inn í lið Valsmanna og var flottur á miðjunni eftir að hann kom inn á. Var að brjóta niður sóknaraðgerðir HK og skoraði svo markið sem skilur á milli," skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson um Almarr í skýrsluna eftir leik.

Stefán valdi svo sigurmarkið sem atvik leiksins: „Boltinn berst inn í teig HK og barningur um boltann sem dettur fyrir Almar Ormarsson fyrir utan teig sem lætur vaða og skorar sigurmark Vals í uppbótartíma."

Lestu um leikinn: Valur 3 - 2 HK

Alveg pínu pirraður en skemmtilegra að skora
Almarr kom inn á sem varamaður og var spurður hvort hann hafi verið pirraður að byrja ekki leikinn. Haukur Páll Sigurðsson tók út leikbann og var Birkir Heimisson á miðjunni í byrjunarliðinu í stað Hauks.

„Já, alveg pínu. Ég var ekki í neinni fýlu eða neitt en mig langaði að byrja. Ég var ekki pirraður út í neinn heldur bara svekktur að vera ekki í byrjunarliðinu en það var ágætt samt að enda þetta svona.“

Skemmtilegra að skora sigurmarkið heldur en að byrja leikinn og gera það ekki?

„Já, nákvæmlega. Ég hugsa að ef ég hefði byrjað þá hefði ég ekki enst allar 90 mínúturnar og þá hefði þetta endað öðruvísi þannig þetta var fínt.“

Lítill tími til að hugsa - Fannst boltinn á leiðinni yfir
Hver voru skilaboðin sem þú fékkst áður en þú komst inn á?

„Heimir einblíndi meira á varnarhlutverkið. Honum fannst HK vera að finna aðeins of auðveldar leiðir í gegnum okkur og vildi þétta miðjuna aðeins. Hann sagði mér líka að reyna að skila mér inn í box og fyrir utan boxið. Þetta voru ekki flókin skilaboð en aðeins að reyna þétta leik liðsins.“

Þegar boltinn kemur til þín undir lokin, hvað fer í gegnum hugann?

„Sparkaðu í boltann og reyndu að hitta markið,“ sagði Almarr og hló. „Þetta gerist allt svo hratt að þú hefur ekki tíma til að hugsa þetta alltof mikið.“

Hefðiru frekar viljað fá boltann á hægri?

„Auðvitað myndi maður vilja fá hann á hægri. Ég kannski hefði blótað því ef skotið hefði farið yfir að boltinn hafi ekki farið á hægri. En fyrst að þetta fór svona þá er ég nokkuð sáttur með þetta.“

Hugsaðiru um leið að skotið væri á leiðinni inn?

„Nei, fyrst fannst mér hann vera á leiðinni yfir. Asnalegt að segja það en mér fannst ég ekkert hitt‘ann alveg frábærlega en boltinn datt aðeins og hafnaði í netinu, sem betur fer.“

Markmiðið að vinna sér inn byrjunarliðssæti
Hverjar eru hugsanirnar eftir leik, þú áttir þessa innkomu og skoraðir markið. Langar þig í meira, í byrjunarliðssætið?

„Já, klárlega sé ég það sem möguleika. Það er búið að vera markmiðið hjá mér síðan ég fer í Val. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekkert auðvelt verkefni og þegar ég talaði við Heimi um að koma í Val þá sagði hann mér í hreinskilni að ég væri ekki í byrjunarliðinu á þeim tíma en ég ætti alveg möguleika á að vinna mér inn sætið."

Orðinn betri fótboltamaður

„Ég er að einbeita mér að því að bæta minn leik dag frá degi og mér finnst ég vera gera það. Á þessum stutta tíma í Val finnst mér ég vera orðinn betri fótbotlamaður en ég var og ég er að bæta formið, bæta leikinn."

„Ég held að ég fái einhverja byrjunarliðsleiki í sumar, hvort sem verði í næstu umferð eða eftir fjórar umferðir skiptir ekkert höfuðmáli fyrir mig. Ég er að reyna hjálpa liðinu eins og ég get núna. Við ætlum að landa stóra titlinum og ég tek bara því hlutverki sem ég fæ í því.“


Geta lagað spilamennskuna en stigasöfnunin góð
Valur er með sjö stig eftir þrjá leiki, eruði sáttir við þessa byrjun?

„Ég held að við séum sáttir með stigasöfnunina, alveg klárlega. Sjö stig eftir þessa þrjá leiki, sérstaklega eftir að hafa lent manni undir gegn FH, er bara nokkuð gott. Það er hins vegar alveg hellingur í spilamennskunni sem við getum lagað. Mér finnst við sérstaklega ekki vera að byrja leiki nógu vel."

„Það er jákvætt að vera með sjö stig en geta samt séð hluti sem þarf að laga. Vonandi náum við að halda áfram að bæta okkar leik og halda stigasöfnuninni áfram,“
sagði Almarr að lokum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner