mán 16. maí 2022 22:31
Brynjar Ingi Erluson
Xhaka brjálaður yfir frammistöðunni - „Þetta er ekki tennis"
Granit Xhaka
Granit Xhaka
Mynd: EPA
Granit Xhaka, miðjumaður Arsenal, var ekkert að afsaka sig eftir 2-0 tap liðsins gegn Newcastle United í kvöld en frammistaðan var ekki boðleg að hans sögn.

Arsenal gat komið sér í þægilega stöðu fyrir lokaumferðina en til þess þurfti liðið sigur gegn Newcastle.

Liðið náði ekki að standast pressuna og tapaði 2-0. Staðan er nú þannig að Arsenal þarf að vinna Everton í lokaumferðinni og treysta á að Tottenham tapi fyrir Norwich.

„Við vildum eiga stórleik en það gerðist ekki. Það er erfitt að finna réttu orðin. Það virkar ekki að sleppa því að hlusta á þjálfarann og gera bara þitt."

„Fólk er alltaf að tala um leiðtoga. Við erum ekki að spila tennis, við erum að spila fótbolta. Ef einhver er ekki klár í þessa pressu þá á viðkomandi að vera heima. Þú getur ekki komið hingað og spilað svona. Við litum illa út í dag og leikplanið var allt öðruvísi. Við spiluðum allt annan leik."

„Þeir voru með yfirhöndina frá fyrstu mínútu og fram að 96. mínútu. Við eigum ekki skilið að vera í Meistaradeildinni ef við spilum svona. Það er pressan. Ef þú getur ekki höndlað hana þá fer þetta nákvæmlega eins og það fór í dag. Það er útlit fyrir að við getum ekkert gert neitt gegn pressunni."

„Ef Tottenham tapar og við vinnum, ég meina maður veit aldrei í fótbolta. Við verðum að vona. Fyrir leikinn var allt í okkar höndum en núna er staðan allt önnur. Það er öðruvísi að þurfa að halda í von í fótbolta og í lífinu,"
sagði Xhaka.
Athugasemdir
banner
banner
banner