Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 17. mars 2020 21:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Breiðablik upplýsir hvernig félagið tekst á við stöðuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik.
Mynd: Hulda Margrét
Í kvöld var birt langt myndband á Blikar.is þar sem skyggnst er á bak við tjöldin hjá Breiðabliki í þeirri stöðu sem er núna komin upp.

Viðtöl voru tekin við Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra Breiðabliks, Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara meistaraflokks karla, og Vilhjálm Kára Haraldsson, verkefnastjóra hjá knattspyrnudeild félagsins.

Allir eru þeir svartsýnir á að Íslandsmótið hefjist í apríl. Pepsi Max-deild karla á að hefjast 22. apríl og Pepsi Max-deild kvenna viku síðar. „Ég held að það yrði algjört kraftaverk," sagði Óskar Hrafn um það að mótið hefjist í apríl.

Um æfingar hjá Blikum sagði Óskar: „Við höfum lagt upp með það að virða þær reglur sem hafa verið settar. Við reynum að halda bili á milli manna, að passa upp á að menn mæti sjálfir klæddir og þvoi fötin sín. Það er búið að loka klefanum okkar."

„Menn vinna í litlum hópum og algjörlega án snertingar. Strákarnir eru jákvæðir eins og þeir eru alltaf."

Önnur lið leitað til Breiðabliks
Engar skipulagðar æfingar eru hjá krökkum á leikskóla- og grunnskólaaldri hjá Breiðabliki.

„Við höfum unnið þetta í samvinnu við bæjaryfirvöld, almannavarnir, ÍSÍ og alla hreyfinguna. Við biðum eftir þeim hvaða ákvörðun þau tækju varðandi æfingar. Það var tekin ákvörðun sem við styðjum, að vera ekki með skipulagða starfsemi til 23. mars fyrir börn á leikskóla- og grunnskólaaldri," segir Eysteinn.

„Þær æfingar fóru allar út. Við fórum á fullt í að skipuleggja með hvaða hætti við gætum haldið æfingum úti fyrir eldri flokka. Við fórum í vinnu strax í kjölfarið við að útfæra þær æfingar hjá öllum deildum."

Blikar hafa verið að setja upp heimaæfingar fyrir þá krakka sem geta ekki mætt á æfingar núna. Eysteinn segir að hringt hafi verið frá öðrum félögum.

„Það er búið að hringja þónokkuð frá öðrum félögum. Við höfum unnið þétt saman í Kópavogi og erum að gefa sömu skilaboðin út sem er mjög mikilvægt. Það hafa nokkur félög haft samband og verið að spyrja hvernig við erum að útfæra þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að við höfum verið að deila þessum æfingum og það er frábært ef við getum hjálpað öðrum," segir Eysteinn.

Sjá einnig:
ÍTF vill betri upplýsingar frá KSÍ um æfingar

Myndbandið má sjá í heild sinni hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner