banner
   þri 17. mars 2020 21:24
Hafliði Breiðfjörð
ÍTF vill betri upplýsingar frá KSÍ um æfingar
HSÍ bannar æfingar með bolta en ekkert heyrist frá KSÍ
HSÍ telur að með samkomubanni yfirvalda sé ljóst að ekki megi æfa með bolta. KSÍ hefur ekki gefið neitt út um málið.
HSÍ telur að með samkomubanni yfirvalda sé ljóst að ekki megi æfa með bolta. KSÍ hefur ekki gefið neitt út um málið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenskur toppfótbolti (ÍTF)* sendi í kvöld út bréf til aðildarfélaga sinna þar sem óskað er eftir betri upplýsingagjöf frá KSÍ vegna æfinga í kjölfar samkomubanns sem hefur tekið gildi hér á landi og segir að mun skýrari skilaboð hafi komið frá HSÍ.

Vegna útbreiðslu Covid-19 kórónaveirunnar hér á landi skipaði ríkisstjórnin samkomubann hér á landi sem tók í gildi í gær.

ÍSÍ sendi í kjölfar frá sér tilkynningu þar sem farið var yfir hvað bannið hefði í för með sér en enn hefur KSÍ ekkert gefið út frá sambandinu.

Handknattleikssambandið, HSÍ, sendi í gær frá sér tilkynnningu vegna málsins þar sem kom fram að yfirlýsingu ÍSÍ megi túlka sem svo að ekki megi æfa með bolta á meðan samkomubannið gildir.

Tilkynning HSÍ
„Æfingar eldri hópa (16 ára og eldri) eru heimilar með þeim takmörkunum sem birtar hafa verið um samkomubann þ.e. ekki fleiri en 100 í sama rými, a.m.k. 2 metrar á milli einstaklinga og kröfur um tiltekin þrif eins og kemur fram í auglýsingu ráðherra. Það kemur skýrt fram frá ÍSÍ og yfirvöldum að þessar takmarkanir skal túlka þröngt og engan afslátt á að gefa af þessum kröfum til að sem mestur árangur náist. Telur HSÍ að þetta girði fyrir notkun á bolta á æfingum (bæði sendingar og skot), þar til frekari leiðbeiningar berast frá yfirvöldum."

ÍTF hefur eins og KSÍ verið gagnrýnt á samfélagsmiðlum fyrir að koma ekki með eigin yfirlýsingu um málið en en nú í kvöld sendi Birgir Jóhannsson framkvæmdastjóri samtakanna út bréf til aðildarfélaganna þar sem hann viðurkennir að félögin skilji samkomubannið hvert með sínum hætti meðan skýrari leiðbeiningar koma ekki fram.

Úr bréfi ÍTF:
„Sum félög vilja banna allar æfingar á meðan önnur félög vilja halda óbreyttu sniði. ÍSÍ lagði til að allar æfingar yrðu felldar niður til 23.mars og staðan tekin eftir það. ÍTF er búið að kalla á eftir skýrari upplýsingum frá KSÍ varðandi æfingar mfl og yngri flokka. Mér finnst eðlilegra að æfingar meistaraflokka sé eitthvað sem er rætt og ákveðið okkar á milli eftir leiðbeiningum almannavarna. T.d. eru skilaboð HSÍ nokkuð nákvæmari en það sem ÍSÍ/KSÍ gaf út."

Stjórn ÍTF fundar í hádeginu á morgun.

*ÍTF eru hagsmunasamtök þeirra félaga sem reka lið í efstu deildum karla og kvenna .
Athugasemdir
banner
banner
banner